Breskir lífeyrissjóðir sýna evrunni engan áhuga!

Samkvæmt könnun Landssamtaka lífeyrissjóða í Bretlandi, NAPF, sem eru stærstu samtök sinnar tegundar í Evrópu, þá virðast lífeyrissjóðir í Bretlandi ætla að hundsa evruna. Er þetta annað árið í röð, sem breskir lífeyrissjóðir virðast ekki sýna evrunni neinn sérstakan áhuga. Á árinu 1999 voru sjóðirnir beðnir um að svara eftirfarandi spurningu: “Hefur þú hug á að breyta fjárfestingarstefnu þinni vegna upptöku evrunnar?" Svarið var mjög afgerandi. 95% svarenda höfðu engin slík áform uppi.

Samkvæmt könnun NAPF höfðu forráðamenn bresku lífeyrissjóðanna mestar áhyggjur af íþyngjandi reglugerðarákvæðum og óvissu því samfara, sem gæti teflt í tvísýnu áformum stjórnvalda um að auka lífeyrisparnað einstaklinga. Alls tóku rúmlega 500 lífeyrissjóðir þátt í þessari könnun. Í könnuninni kom mjög greinilega fram að menn töldu að við fjárfestingar þyrfti nú langtum meiri rannsóknarvinnu heldur en fyrir 5 árum. 91% svarenda voru á þeirri skoðun. Níu af hverjum tíu töldu líka að rannsóknarvinna við fjárfestingarákvarðanir mundi aukast verulega á næstu fimm árum. 60% svarenda töldu að félagslegar, umhverfislegar og siðferðislegar aðstæður hefðu engin áhrif á fjárfestingarákvarðanir þeirra, þó svo að reglur gerður ráð fyrir því að slíkar aðstæður væru kannaðar við ákvörðunartökuna. Þá voru um 60% af lífeyrissjóðum stærri fyrirtækja í Bretlandi ánægðar með ný lagaákvæði um sveigjanleg starfsaldurslok, sem hefðu hvetjandi áhrif á eldra fólk að halda áfram launuðum störfum vinnumarkaðinum og minnka þar með lífeyrisbyrði hins opinbera. Sjá nánar heimasíðu National Association of Pension Funds, Landssamtaka lífeyrissjóða á Bretlandi: http://www.napf.co.uk/


Þýtt lauslega úr EPN, 8. janúar 2001.