Björt framtíðarmynd aldraðra vegna framúrskarandi lífeyrissjóðakerfis.

"Ellilífeyrisþegar framtíðarinnar munu ekki verða samfélaginu byrði heldur þvert á móti," sagði Ásmundur Stefánsson ríkissáttasemjari á opnum morgunverðarfundi Tryggingastofnunar ríksins  í morgun. Í erindinu, "Aldraðir - yfirstétt framtíðarinnar," dró Ásmundur upp bjarta framtíðarmynd af stöðu lífeyrisþega árið 2040.

Ásmundur sagði það almenna og viðtekna skoðun í umræðum um aldraða í samfélagi framtíðarinnar að þjóðin stæði frammi fyrir óyfirstíganlegu vandamáli. Ástæðurnar væru m.a. að öldruðum fjölgi sífellt, þeir sem væru virkir á vinnumarkaði hefðu sífellt fyrir fleirum að sjá, heilbrigðiskerfið yrði sífellt dýrara, hallinn á fjárhag hins opinbera yrði sífellt meiri, unga fólkið yrði ekki fært um að standa straum af kostnaði við umönnun aldraða og lífeyrisþegar myndu búa við fátækt og ekki eiga kost á viðunandi hjúkrunarþjónustu.

Ásmundur lýsti sig ósammála þessum skoðunum og sagði að lífeyrisþegar framtíðarinnar myndu almennt sjálfir standa straum af framfærslu sinni. "Þeir munu sem hópur gera meira en standa undir þeirri opinberu þjónustu sem þeir nýta mest," sagði hann.