Á ársfundi Lífeyrissjóðsins Framsýnar, sem haldinn var í gær, var tilkynnt að Bjarni Brynjólfsson, framkvæmdastjóri Verðbréfamiðlunar Framsýnar ehf., tæki við stöðu framkvæmdastjóra sjóðsins þann 1. júlí n.k.
Þetta kom fram í skýrslu stjórnarformanns, Þórarins V. Þórarinssonar, á ársfundinum í gær. Núverandi framkvæmdastjóri, Karl Benediktsson, mun að eigin ósk láta af störfum framkvæmdastjóra 1. júlí n.k., en þann dag verður hann 67 ára. Karl mun þó vinna áfram að sérgreindum verkefnum fyrir sjóðinn. Var Karli þökkuð framúrskarandi störf fyrir lífeyrissjóðinn en hann hefur 30 ára farsælan starfsferill að baki hjá lífeyrissjóðunum, aðallega hjá Lífeyrissjóði Dagsbrúnar og Framsóknar, þar sem hann gegndi störfum framkvæmdastjóra í aldarfjórðung. Sá sjóður er nú einn af stofnsjóðum Lífeyrissjóðsins Framsýnar. Ársfundurinn samþykkti að auka réttindi sjóðfélaga um 7% frá og með 1. júlí n.k. og mun þessi aukning auka skuldbindingar sjóðsins um 2.900 m.kr. Jafnframt var samþykkt á ársfundinum að réttindastuðull elli- og örorkulífeyris sem er 1.4 verði 1.5 og réttindastuðull makalífeyris sem er 0,7 verði 0,75 frá 1. júlí n.k.