Bjarki A. Brynjarsson hefur ákveðið að hætta í stjórn Lífeyrissjóðs verkfræðinga. Hann sendi fjölmiðlum í dag eftirfarandi fréttatilkynningu: „Ég hef ákveðið að ganga til liðs við H.F. Verðbréf hf. Starfssvið mitt verður áfram ráðgjöf til fyrirtækja og stofnana á sviði endurskipulagningar, fjármögnunar, kaupa og sölu, sameininga, ofl. en áherslan í störfum mínum færist frá erlendum mörkuðum og hingað heim. Það er mikilvægt að ekki leiki minnsti vafi á því að stjórnir lífeyrissjóða starfi með hagsmuni sjóðfélaga að leiðarljósi í viðskiptum við fjármálafyrirtæki og það er mikilvægt að H.F. Verðbréf haldi óhæði sínu og sterku orðspori á fjármálamarkaði. Þá setja lög um fjármálafyrirtæki því skorður að starfsmenn eftirlitsskyldra aðila sinni stjórnarstörfum fyrir annan eftirlitsskyldan aðila
Það er því niðurstaða mín, til þess að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra í tengslum við störf mín, að segja mig úr stjórn Lífsverk frá og með 1. júní næstkomandi.
Á því rúma ári sem ég hef leitt starf Lífsverk hafa orðið miklar breytingar á yfirstjórn sjóðsins og verklagi auk þess sem gerð hefur verið gagnger úttekt á eignasafni sjóðsins og unnið að stefnumótun til framtíðar. Ég er þess fullviss að núverandi framkvæmdastjóri og stjórn muni leiða sjóðinn farsællega áfram og læt því af störfum sáttur.
Ég þakka starfsmönnum og stjórnendum sjóðsins fyrir mjög gott samstarf og óska þeim velfarnaðar í störfum sínum."
Bjarki A. Brynjarsson
Landssamtök lífeyrissjóða þakka Bjarka gott samstarf en á síðasta kjörtímabili sat hann í varastjórn samtakanna.