Ávöxtun mjög góð hjá Lífeyrissjóði Norðurlands, en tryggingafræðileg staða fer versnandi.

Raunávöxtun Lífeyrissjóðs Norðurlands nam 13.3% á árinu 2004. Þetta er næstbesti árangur í sögu sjóðsins frá stofnun hans  árið 1992.  Á síðustu 10 árum er árleg raunávöxtun sjóðsins að meðaltali 6,7%.   Innlend hlutabréf gáfu besta ávöxtun á síðasta ári og var raunávöxtun þeirra 58,5%.  Raunávöxtun ríkistryggðra skuldabréfa var 5,8%. 

Ávöxtun erlendra hluta- og skuldabréfa reyndist neikvæð vegna styrkingar krónunnar.  Eignir sjóðsins í árslok námu 39,2 milljörðum króna og hækkuðu um 6,3 milljarða króna frá fyrra ári.  Virkir sjóðfélagar voru rúmlega 12 þúsund, launagreiðendur 1.550 og lífeyrisþegar um 3.800 talsins.  Iðgjöld ársins voru tæplega 1.729,4 mkr. og lífeyrir 1.127,9 mkr. eða sem nam ríflega 65% af iðgjöldum. 

 Í árslok voru eignir umfram áfallnar skuldbindingar 1% og eignir umfram heildarskuldbindingar -5%.  Þrátt fyrir að árið 2004 hafi skilað 13,3% raunávöxtun og 6,3 milljarða hækkun eigna, gera vaxandi örorka og hækkaðar ævilíkur það að verkum að tryggingafræðileg staða á heildarskuldbindingum versnaði um ríflega 2 milljarða króna.  

Séreignardeild

Heildarinneign í Séreignardeild nam 1.184,0 mkr. í árslok og hækkaði um 471,3 mkr. frá fyrra ári eða 66,1%.  Í deildinni er boðið upp á tvær sparnaðarleiðir.  Raunávöxtun í Safni I var 10,6% og í Safni II var hún 12,6%.  Frá því Séreignardeildin var sett á laggirnar í ársbyrjun 1999 nemur raunhækkunin 62,4% á Safni I og 73,9% á Safni II.