Ávöxtun Lífeyrissjóðs sjómanna var í fyrra 7% sem jafngildir -1,6% raunávöxtun

Lífeyrissjóður sjómanna hefur gengið frá ársreikningi fyrir árið 2001. Ávöxtun á árinu var 7% sem jafngildir -1,6% raunávöxtun. Ávöxtun innlendra og erlendra hlutabréfa var neikvæð á árinu og endurspeglast það í ávöxtun sjóðsins. Meðaltal raunávöxtunar sjóðsins s.l. 5 ár er 5,2%.

Hrein eign til greiðslu lífeyris nam 44.868 m.kr. í árslok 2001 og hækkaði hún um 9% frá fyrra ári. 72% af eignum sjóðsins eru í innlendum skuldabréfum, 8% í innlendum hlutabréfum og 20% í erlendum hlutabréfum, sem er svipað hlutfall og í árslok 2000. Tryggingafræðileg staða versnar á milli ára sem skýrist af ávöxtun sjóðsins. Sjóðurinn á í árslok 2001 eignir sem nema 1.731 milljón króna umfram áfallnar skuldbindingar (3,6% af skuldbindingum), en vantar 7.514 milljónir til þess að eiga fyrir heildarskuldbindingum (-8,8% af heildarskuldbindingum). Samtals greiddu 5.800 sjóðfélagar iðgjöld á árinu og fjöldi launagreiðanda var 642. Lífeyrisþegum fjölgaði á milli ára um 136 og voru þeir alls 2.820. Raunávöxtun séreignardeildar sjóðsins var jákvæð um 1%.