Samkvæmt skýrslu frá endurskoðunarfyrirtækinu KPMG þá hafa auknar lífslíkur í Bretlandi haft í för með aukinn kostnað að fjárhæð 40 milljarða punda síðustu þrjú árin.
Um er að ræða kostnað sem lífeyrissjóðir á vegum fyrirtækja í Bretlandi þurfa að taka á sig vegna þess að sjóðfélagar lifa nú lengur en áætlanir gerðu áður ráð fyrir.
Lífslíkur bótaþega hafa aukist verulega og er nú gert ráð fyrir að menn nái 86 ára aldri að meðaltali, en fyrri áætlanir miðuðust við að bótaþegar næðu 83 ára aldri árið 2004, 84 ára aldri 2005 og 85 ára aldri árið 2006.
Bresku fyrirtækin gera samt sem áður ráð fyrir því að núverandi sjóðfélagar muni að meðaltali ná 87 ára aldri og samkvæmt skýrslu KPMG er tilhneigingin sú hjá fjármálafyrirtækjum að gera ráð fyrir auknum lífslíkum starfsmanna sinna frá einu til einu og hálfu ári miðað við starfsmenn í öðrum atvinnugreinum.