Meðalævilengd nýfæddrar stúlku hér á landi er nú 82,9 ár og drengs 78,6 ár og hefur aukist um 0,7 ár á tveimur árum. Þetta kemur m.a. fram í nýjum útreikningum um lífslíkur sem Félag íslenskra tryggingastærðfræðinga hefur unnið, en útreikningar miðast við reynslu áranna 2001 til 2005.
Þessar upplýsingar um auknar lífslíkur verða notaðar við tryggingafræðileg uppgjör lífeyrissjóðanna um áramótin og hefur breytingin áhrif á skuldbindingar lífeyrissjóðanna.
Áætlaður líftími 67 ára karls er 16,1 ár samanborið við 16 ár í fyrri útreikningum og hjá konum er áætlaður líftími 18,9 ár samanborið við 18,3 áður. Misjafnt er milli sjóða hver breytingin er, en ætla má að áhrif breytinga séu minni en við síðustu útreikninga sem gerðir voru árið 2004, en þá jukust skuldbindingar sjóðanna um 1-2%.