Auknar lífslíkur auka skuldbindingar sjóðanna.

Auknar lífslíkur Íslendinga munu auka heildarskuldbindingar lífeyrissjóða um nálægt 2% að meðaltali við uppgjör nú um áramótin, en þá taka gildi nýjar líkindatöflur um lífslíkur Íslendinga byggðar á reynslu áranna 1996-2000, en fyrri töflur sem miðað var við miðuðust við reynslu áranna 1991-1995. 

SVið uppgjör lífeyrissjóða á þessu ári verður tekið mið af lífslíkum sem byggðust á reynslu áranna 1996-2000. Gera mái ráð fyrir að heildarskuldbindingar lífeyrissjóðanna aukist af þessum sökum um 1,5-2,5% eftir aldurssamsetningu viðkomandi sjóðs. Samsetning sjóða eftir kynjum virðist ekki hafa mikil áhrif að þessu sinni þar sem ævilengd bæði karla og kvenna væri að aukast.

 

Meðalævi kvenna fimm árum lengri en karla

Meðalævilengd karla samkvæmt reynslu áranna 1996-2000 var 76,92 ár, en var 76,21 ár áður miðað við reynslu áranna 1991-1995. Ævilengd karla hefur því aukist um 0,7 ár á þessu tímabili. Meðalævilengd kvenna er hins vegar 81,73 ár miðað við tímabilið 1996-2000 eða tæpum fimm árum lengri en karlanna. Meðalævilengd kvenna hefur aukist litlu minna en karlanna eða um 0,6 ár, en meðalævilengd þeirra var 81,13 ár árabilið 1991-1995.

Þá kemur einnig fram þegar töflurnar yfir meðalævilengd 1996-2000 eru skoðaðar að meðalævilengd karlmanns sem hefur töku lífeyris 67 ára gamall er 15,21 ár. Gera má hins vegar ráð fyrir að 67 ára gömul kona sem hefur töku lífeyris lifi að meðaltali tveimur og hálfu ári lengur eða í 17,85 ár. Sjá einnig heimasíðu Félag íslenskra tryggingastærðfræðinga.