Auknar hæfnskröfur gerðar til framkvæmdastjóra lífeyrissjóðanna

Auknar kröfur verða gerðar til framkvæmdastjóra lífeyrissjóðana, ef frumvarp sem nú liggur fyrir Alþingi um breytingar á lífeyrissjóðalögunum nær fram að ganga. Frumvarpið fjallar þó einkum um auknar heimildir lífeyrissjóða til hlutabréfakaupa og fjárfestinga erlendis. Samhliða auknu frelsi til fjárfestinga eru því líka gerðar auknar kröfur til hæfni stjórnenda sjóðanna.

Lagt er til í frumvarpinu að menntun, starfsreynsla og starfsferill framkvæmdastjóra lífeyrissjóða sé með þeim hætti að tryggt sé að hann geti gegnt stöðu sinni á forsvaranlegan hátt, eins og það er orðað í frumvarpinu. Ákvæðið er efnilega samhljóða því sem gildir um bankastjóra og sparisjóðsstjóra samkvæmt bankalögum. Þá gerir frumvarpið ennfremur ráð fyrir því að lífeyrissjóðir hafi í þjónustu sinni sérfræðing sem sé fær um að stýra fjárfestingum lífeyrissjóða á grundvelli menntunar sinnar og starfsreynslu. Með greindum kröfum er t.d. átt við aðila sem hefur lögfræði-, viðskiptafræði-, hagfræði- eða verkfræðimenntun auk reynslu af stýringu eignasafna eða sambærilegum störfum. Rétt þykir að gera ríkar kröfur í þessum efnum, þar sem þróun á fjármálamarkaði hafi í för með sér aukna sérhæfingu. Sérfræðingur sá sem stýra skal eignasafni lífeyrissjóða getur hvort heldur verið starfsmaður sjóðsins eða starfað sem verktaki.