Athugasemd Lífeyrissjóðs verzlunarmanna vegna ummæla í Kastljósi.

Í viðtali Sigmars B. Guðmundssonar við Jón F. Thoroddsen í Kastljósi, miðvikudaginn 24. júní s.l., víkur Jón m.a. að samskiptum sínum við Lífeyrissjóð verzlunarmanna. Hann kvaðst hafa það eftir starfsmanni í eignastýringu sjóðsins, með vísan til samtals frá miðjum september 2008, að ekki stæði til að selja hlutabréf sjóðsins í bönkunum, sem hann telur ámælisvert í ljósi óvissu sem þá var um framtíð bankanna.
Af þessu tilefni skal eftirfarandi tekið fram:  Lífeyrissjóður verzlunarmanna seldi hlutabréf umfram kaup á árinu 2008 fyrir sem nemur sex milljörðum króna og fór sú sala að verulegu leyti fram þegar dró að falli bankanna í október.

Sjóðurinn seldi einnig hlutabréf umfram kaup á árinu 2007 eins og fram kemur í ársskýrslu sjóðsins sem eru Jóni og öllum almenningi aðgengilegar á heimasíðu sjóðsins. Í þessum viðskiptum innleysti Lífeyrissjóður verzlunarmanna hagnað af þessum eignaflokki, þótt vissulega hafi sjóðurinn tapað á fjárfestingunum við fall bankanna. Þau hlutabréf sem voru seld voru að stærstum hluta bréf í viðskiptabönkunum enda voru þeir stærsti hluti hlutabréfavísitölunnar og þar með hlutfallslega stærstir í eignasafni lífeyrissjóðsins.
Lífeyrissjóður verzlunarmanna er fagfjárfestir með umtalsvert eignasafn og því geta fyrirætlanir og vangaveltur um fyrirhuguð viðskipti hans á innlendum hlutabréfamarkaði haft áhrif á verðmyndun. Sjóðurinn hefur þá skýru reglu að upplýsa aldrei um fyrirætlanir sínar í slíkum viðskiptum, hvorki í samskiptum við verðbréfamiðlara né aðra, en vísar þess í stað jafnan til fjárfestingarstefnu sinnar sem fram kemur í ársskýrslu sjóðsins hverju sinni. Á því er engin undantekning hvað varðar samskipti við Jón F. Thoroddsen.