Athugasemd frá LSR í tilefni viðtals við Guðna Ágústsson.

Í tilefni af viðtali við Guðna Ágústsson, varaformann Framsóknarflokksins, sem sem sýnt var í fréttatíma Sjónvarpsins miðvikudaginn 24. október, og fullyrðingum hans um verðbréfakaup Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, vill lífeyrissjóðurinn koma á framfæri eftirfarandi athugasemdum:

Eignir LSR eru nú 87 milljarðar króna. Þar af hefur 82% af eignum sjóðsins verið ráðstafað til ávöxtunar innanlands, einkum til uppbyggingar húsnæðiskerfisins, skuldabréfakaupa af fyrirtækjum og sveitarfélögum og til að kaupa hlutabréf í íslenskum fyrirtækjum. Samhliða því að leita eftir góðri ávöxtun hefur LSR því í ríkum mæli tekið þátt í að byggja upp atvinnu og öflug fyrirtæki á Íslandi eins og þessar tölur sýna. Sem dæmi má nefna að LSR hefur á þessu ári keypt hlutabréf í skráðum íslenskum hlutafélögum fyrir rúmlega 3,5 milljarða kr. og skuldabréf af innlendum lánastofnunum fyrir svipaða fjárhæð, þar af ríkistryggð skuldabréf af Lánasjóði landbúnaðarins fyrir 1,7 milljarð kr. Samkvæmt lögum er íslenskum lífeyrissjóðum heimilt að vera með allt að 50% af eignum sínum í erlendum og innlendum hlutabréfum. 18% af eignum LSR hefur verið ráðstafað til ávöxtunar í erlendum hlutabréfum. Þetta hlutfall er með því lægsta sem þekkist hjá íslenskum lífeyrissjóðum og hafa stjórnendur sjóðsins sætt gagnrýni fyrir íhaldssemi í þessum efnum. LSR hefur samið við 5 erlend fjármálafyrirtæki sem sjá um erlend verðbréfakaup fyrir sjóðinn. Fjárfest er í hlutabréfasöfnum þar sem einungis eru keypt bréf í stórum hlutafélögum sem skráð eru á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum. LSR fékk heimild til erlendra verðbréfakaupa seint á árinu 1997. Á árinu 1998 var ávöxtun af erlendum hlutabréfum sjóðsins 22,69%, 35,1% á árinu 1999, -9,9% á árinu 2000 og -6% á fyrri helmingi ársins 2001. Sveiflur í ávöxtun hafa þannig verið miklar á þessu tímabili, en vegin meðalávöxtun tímabilsins er 10,18%. Það er því rangt sem Guðni Ágústsson hélt fram í sjónvarpsfréttum að sjóðurinn hefði tapað 5 milljörðum kr. á erlendum fjárfestingum. Hið rétta er að sjóðurinn hefur ekki tapað á erlendri fjárfestingu þegar á heildina er litið. Þvert á móti hafa þessar fjárfestingar skilað hagnaði.