Fyrri hluta marsmánaðar óskaði félagsmálaráðherra, Páll Pétursson, eftir að ræða við forystumenn Landssamtaka lífeyrissjóða um sérstakt átak í byggingu leiguíbúða næstu fjögur árin og hvort og þá hvernig lífeyrissjóðir gætu komið að fjármögnun slíks verkefnis.
Óskum um hlutafjárþátttöku lífeyrissjóðanna um eignarhald og rekstur leiguíbúðanna var hafnað. Fljótlega kom upp sá flötur í viðræðunum að farsælast væri að þátttaka lífeyrissjóðanna yrði með þeim hætti að þeir lánuðu Íbúðalánasjóði sem síðan endurlánaði fjármunina til aðila sem stæðu að byggingu leiguíbúðanna. Fyrirhugað er að byggja 600 leiguíbúðir á næstu árum til viðbótar almennum heimildum Íbúðalánasjóðs vegna leiguíbúða. Sveitarfélögin útvegi lóðir undir íbúðirnar og lífeyrissjóðirnir fjármagni þetta sérstaka átak í samstarfi við Íbúðalánasjóð. Stefnt er að því að byggja hagkvæmar íbúðir og lögð áhersla á aðgerðir til að lækka byggingarkostnað og að auka framboð minni íbúða. Átakið einskorðast ekki einvörðungu við höfuðborgarsvæðið. Gert er ráð fyrir að lánssamningur Íbúðalánasjóðs og lífeyrissjóðanna verði að fjárhæð 6 - 7 milljarðar, skuldabréfakaupin hefjist seint á þessu ári og vari fram á árið 2005 og að Íbúðalánasjóður skuldbindi sig til að nota það fjármagn sem samningurinn innifelur til fjármögnunar vegna sérstaks átaks við byggingu leiguíbúða á samningstímanum.