Í gær undirrituðu Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands samkomulag um framtíðarskipulag lífeyriskerfisins og um ráðstöfun á 1% viðbótarframlagi atvinnurekenda um næstu áramót. Stefnt er að því að tekin verði upp aldurstengd réttindaávinnsla og að þeir lífeyrissjóðir sem vilja eða þurfa að breyta réttindaávinnslukerfi sínu geti gert það samtímis.
Undanfarið hafa fulltrúar ASÍ og SA átt í viðræðum um lífeyrismál, m.a. um með hvaða hætti eigi að framkvæma hækkun á mótframlagi atvinnurekenda um næstu áramót. Í viðræðum aðila hefur komið fram að mikilvæg rök hníga í þá átt að taka upp aldurstengda réttindaávinnslu. Jafnframt sé æskilegt að þeir lífeyrissjóðir sem vilja eða þurfa að breyta réttindaávinnslukerfi sínu geti gert að samtímis.
Þá kemur fram í samkomulaginu að óhjákvæmilegt sé að lífeyrissjóðir taki í notkun nýjar töflur um auknar ævi- og örorkulíkur, sem muni leiða til aukinnar útgjalda hjá sjóðunum.
Fram kemur að 1% viðbótarframlag atvinnurekenda um næstu áramót mun auka framtíðarskuldbindingar lífeyrissjóða með jafna réttindaávinnslu miðað við óbreyttar samþykktir. Því sé nauðsynlegt, ef tryggingafræðiegt uppgjör um næstu áramót sýni að viðkomandi sjóður eigi ekki fyrir skuldbindingum sínum og að staða sjóðsins stangist á við ákvæði 39. gr. laga um lífeyrissjóði, að þá verði gripið til aðhaldsaðgerða sem byggðar séu á tryggingafræðilegu mati.
Í samkomulaginu er einnig fjallað um réttindaávinnslu og framtíðarskipulag lífeyriskerfisins. Nauðsynlegt sé að ná samkomulagi um framtíðarskipulag lífeyriskerfisins og hvernig fyrirkomulagi réttindaávinnslu sjóðfélaga verði hagað þannig að sjóðirnir geti staðið við skuldbindingar sínar við sjóðfélaga. Stefnt er að því að tekin verði upp aldurstengd réttindaávinnsla og að þeir lífeyrissjóðir sem vilja eða þurfa að breyta réttindaávinnslukerfi sínu geti gert það samtímis.
Samningsaðilar eru sammála um að m.a. vegna hækkunar lífaldurs og vegna aukinnar örorkubyrðis sjóðanna, að þá sé mikilvægara en nokkru sinni fyrr að taka upp viðræður við stjórnvöld með það að markmiði að finna framtíðarfyrirkomulag þessara mála.
Sjá meðfylgjandi samkomulag ASí og SA.