Velferðarnefnd ASÍ hefur lagt til viðamiklar breytingar á almannatryggingakerfinu. Nettókostnaður breytinganna mun nema um 3.000 m.kr. á ári. ASÍ leggur til að tekjur af sölu "fjölskyldusilfursins", þ.e.a.s. af sölu ríkisfyrirtækja, verði nýttar til að bæta kjörin.
Til að skapa umræðugrundvöll um framtíðaruppbyggingu almannatryggingakerfisins, setur ASÍ fram eftirfarandi hugmyndir: 1) Lífeyrisbætur almannatrygginga verði tvískiptar: a) Ótekjutengdur grunnlífeyritr. b) Einn tekjutendur hluti sem bætist við grunnlífeyri. 2) Bætur einstaklings verði hærri en bætur þess sem er í hjónabandi eða sambúð. Að mati ASÍ eru helstu kostir hugmyndanna þeir að öllum eru tryggð réttindi í almannatryggingakerfinu með grunnlífeyri sem sé óháður tekjum. Einnig er kerfið einfaldað verulega með því að setja þrjá tekjutengda bótaflokka í einn bótaflokk. Með því eru bætur flestra hækkaðar, dregið úr tekjuskerðingu meðal þeirra tekjulægstu og fleiri munu eiga rétt á fullum bótum. Lagt er til að bætur almannatrygginga hækki í takt við launavísitölu. ASÍ leggur áherslu á að þessar tillögur séu fyrst og fremst hugmyndir að uppbyggingu almannatryggingakerfisins og að ASÍ kalli eftir þjóðarumræðu um þær og að lokum þjóðarsátt um framtíðaruppbyggingu almannatryggingakerfisins. Velferðarmál - tillaga velferðarnefndar ASÍ að áherslum og helstu verkefnum er að finna á vefsíðu ASÍ: www.asi.is