Ráðstefnan, sem ber yfirskriftina "Hvert viljum við stefna? Samspil almannatrygginga, lífeyris- og skattkerfis" verður haldin í Salnum, Tónlistarhúsi Kópavogs, Hamraborg 6, miðvikudaginn 28. mars, kl. 13-17.
Til ráðstefnunnar er boðið fulltrúum samtaka launafólks, ráðherrum, þingmönnum, sérfræðingum ráðuneyta, fulltrúum lífeyrissjóða, Seðlabanka og Þjóðhagsstofnunar, fulltrúum frá samtökum aldraðra og öryrkja, fræðimönnum og öðrum þeim sem áhuga hafa á þessu brýna málefni, svo lengi sem húsrúm leyfir. Sérstakur gestur ráðstefnunnar og einn af fyrirlesurum er Joakim Palme, prófessor við Sænsku félagsvísindastofnunina og einn fremsti fræðimaður Norðurlanda á sviði lífeyris- og velferðarmála. Joakim Palme hefur stýrt fjölda rannsókna á lífeyris- og velferðarkerfum Evrópu, og gegnt hlutverki ráðgjafa fyrir sænsk stjórnvöld. Erindi Palme á ráðstefnu ASÍ nefnist: „Hrói höttur, Mattheus eða algjört jafnrétti? – Velferðarkerfi 21. aldarinnar - viðfangsefni og möguleikar “. Aðrir fyrirlesarar á ráðstefnunni verða Már Guðmundsson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, Rannveig Sigurðardóttir, hagfræðingur ASÍ og Stefán Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands. Þá mun forsætisráðherra, Davíð Oddsson, ávarpa ráðstefnuna. Sérstök ástæða er til að hvetja forystumenn lífeyrissjóðanna til að sækja ráðstefnuna og fylgjast með fróðlegum og spennandi umræðum.