Alþýðusamband Íslands höfðaði mál gegn íslenska ríkinu til gæslu hagsmuna allra félagsmanna sinna vegna skattlagningar á lífeyrissjóði. Héraðsdómur vísaði málinu frá þann 12. nóvember á þeim forsendum að ASÍ væri ekki málsaðili. Úrskurðurinn var kærður til Hæstaréttar sem staðfesti úrskurð héraðsdóms þann 6. desember sl. ASÍ ákvað að láta á aðildina reyna þrátt fyrir vafa allt frá upphafi. Því hafði ASÍ áður en málið var þingfest í héraðsdómi tekið ákvörðun um að sambandið myndi f.h. tiltekins lífeyrissjóðs höfða mál á sömu efnisforsendum til endurgreiðslu hins álagða skatts, þ.e. þar sem álagningin hefði brotið gegn ákvæðum stjórnarskrár. Til þess að undirbyggja þá málshöfðun greiddu allir almennu lífeyrissjóðirnir skattinn með fyrirvara um lögmæti hans. ASÍ undirbýr nú slíka málssókn með breyttri aðild gegn ríkinu til endurgreiðslu skattsins.