Árið 2001 versta ár breskra lífeyrissjóða síðan 1990.

Síðasta ár verður versta ár hvað varðar fjárfestingarárangur hjá lífeyrissjóðum í Bretlandi í meira en áratug. Þessa upplýsingar koma fram hjá ráðgjafafyrirtækinu The WM Company í Edinborg.

Fram kemur hjá fyrirtækinu að þetta sé í fyrsta skipti sem ávöxtun lífeyrissjóða í Bretlandi er neikvæð tvö ár í röð, en slíkt hafi ekki átt sér stað síðan fyrirtækið hóf mælingar á ávöxtun breskra lífeyrisjóða fyrir aldarfjórðungi eða svo. Meðalávöxtun breskra lífeyrissjóða í fyrra var neikvæð um 9,6% borið saman við 11% neikvæða ávöxtun 1990. Bresk skuldabréf báru að vísu 3% jákvæða ávöxtun samanborið við 16% meðaltalslækkun breskra hlutabréfa. Ávöxtun evrópskra hlutabréfa var neikvæð að meðaltali um 20% meðan bandarísk hlutabréf féllu um 12% og þau japönsku um 28%. Árið 2001 var ár endurkomu hefðbundinna fyririrtækja af gamla skólanum, ef svo má að orði komast, svo sem í smásölu, heimilistækjum, ýmiss konar mannvirkjagerð og byggingastarfsemi, þar sem hagnaður var ágætur. Hlutabréf tölvufyrirtækja féllu hins vegar um 70%, fyrirtækja á sviði hugbúnaðargerðar um 50% og síma- og margmiðlunarfyrirtækja féllu yfir 35%. Að sögn WM Company eru lífeyrissjóðir í Bretlandi í óða önn að breyta eignasöfnum sínum og dreifa áhættunni. Þannig eru sjóðirnir að selja innlend hlutabréf, en kaupa í staðinn skuldabréf og alþjóðleg hlutabréf. Hlutfall hlutabréfa í eignasöfnum breskra lífeyrissjóða var áætlað um 68% í árslok 2001, sem er lækkun um fjögur prósentustig eða úr 72% miðað við árslok 2000, en þessi þróun að minnka vægi hlutabréfa hófst hjá lífeyrissjóðum í Bretlandi fyrir fjórum árum. Á síðasta áratug hefur meðal árleg ávöxtun breskra lífeyrissjóða verið um 11%, þar af síðustu 5 árin að meðaltali um 8% á ári. Raunávöxtunin hefur líka farið lækkandi, þrátt fyrir að verðbólgan hafi hjaðnað á undanförnum árum í Bretlandi. Hvað sem öðru líður þá vilja menn trúa því að árið 2001 hafi verið mjög óvenjulegt ár sem flestir fjárfestar séu fegnir að sé að baki.


IPE 18. janúar 2002