Málflutningur Helga Vilhjálmssonar, sælgætisframeiðenda, sætti harðri gagnrýni í máli manna á sjóðfélagafundi STAFA lífeyrissjóðs s.l. fimmtudagskvöld. Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, kallaði fullyrðingar Helga „popúlisma og lágkúru af verstu gerð og það frá manni sem kaupir opnu eftir opnu í dagblöðum til að krefjast þess að fá að ráðstafa annarra manna lífeyri.“
Sjóðfélagafundurinn tók skýrt fram það hvorki geti né eigi að vera hlutverk lífeyrissjóða að eiga og reka dvalarheimili aldraða eða taka yfireitt þátt í atvinnustarfsemi sem kunni að íþyngja rekstri sjóðanna.
Sjóðfélagafundur Stafa 26. mars samþykkti með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða að „fela stjórn Stafa að kanna möguleika sjóðsins til fjárfestinga í fasteignafélögum sem hafa að markmiði að reisa dvalarheimili fyrir aldraða.
Þetta verði gert með kaupum á skráðum hlutabréfum eða skuldabréfum á verðbréfamarkaði.“ Flutningsmaður tillögunnar var Ísleifur Tómasson og þar kemur fram að markmið Stafa lífeyrissjóðs skuli vera að „stuðla þannig að velferð í samfélaginu en ávaxta jafnframt fjármuni sína til langs tíma.“
Skilja mátti að kveikjan að ályktunartillögunni hefði verið auglýsingaherferð Helga Vilhjálmssonar, sælgætisframleiðanda í Góu, í blöðum núna í vikunni þar sem hann ítrekar kröfur sínar um að lífeyrissjóðir fái „heimild til að byggja og reka húsnæði fyrir eldri borgara sem greitt hafa í sjóðinn“ og sakar lífeyrissjóði í leiðinni um að nota fjármuni sína til að „borga sukk örfárra einstaklinga“.
Fram kom á sjóðfélagafundi Stafa að fjárfesting í fasteignafélögum væri út af fyrir sig í samræmi við yfirlýsta og samþykkta fjárfestingarstefnu sjóðsins en ekki kæmi til greina að sjóðurinn færi að eignast og reka íbúðir fyrir sjóðfélaga sína. Í lok ályktunar fundarins var tekin afdráttarlaus afstaða gegn hugmyndum um fasteignarekstur sem meðal annars koma fram í opnuauglýsingunum frá Helga í Góu:
„Sjóðfélagafundurinn tekur hins vegar skýrt fram það hvorki geti né eigi að vera hlutverk lífeyrissjóða að eiga og reka dvalarheimili aldraða eða taka yfireitt þátt í atvinnustarfsemi sem kunni að íþyngja rekstri sjóðanna.“