ALVÍB er orðinn stærsti séreignarsjóðurinn.

Árið 2001 var mikill vöxtur í starfsemi ALVÍB og náði sjóðurinn þeim áfanga að verða stærsti séreignarsjóðurinn. Heildareignir ALVÍB í lok ársins voru 11.213 milljónir og jukust þær um 32% á árinu. Raunávöxtun Ævisafna ALVÍB var -2,2% til 2,9%.

Á árinu 2001 voru greidd iðgjöld til ALVÍB samtals 2.106 milljónir sem er 27% aukning. Í lok ársins 2001 voru sjóðfélagar í ALVÍB samtals 15.220 og fjölgaði þeim um 2.011 á árinu eða um 15%. ALVÍB er fjölmennasti séreignarsjóður landsins. Í ALVÍB geta sjóðfélagar valið á milli þriggja verðbréfasafna Ævisafna I, II og III eða Ævileiðina en þá flyst inneign milli ævisafna eftir aldri. Nafnávöxtun safnanna var á bilinu 6,2% til 11,7% og raunávöxtun -2,2% til 2,9%. ALVÍB metur skuldabréf sín á markaðsverði en flestir lífeyrissjóðir meta skuldabréfin hins vegar miðað við upphafleg vaxtakjör. Mismunur á uppgjörsaðferðum er meiri ef ávöxtun er skoðuð yfir lengra tímabil. Þannig er meðalraunávöxtun Ævisafns II sl. fimm ár 3,9%. Séu skuldabréf hins vegar metin miðað við upphafleg vaxtakjör hefði meðalraunávöxtunin verið 5,6%. Nýleg tryggingafræðileg úttekt á stöðu samtryggingasjóðs ALVÍB í árslok 2001 sýnir mjög sterka tryggingafræðilega stöðu sjóðsins og eru heildareignir 7,7% umfram heildarskuldbindingar. Vegna þessa hefur stjórn sjóðsins ákveðið að greiddur verði 10% bónus þannig að hver sjóðfélagi fái 10% af reiknaðri áfallinni skuldbindingu sinni til að auka við lífeyrisréttindi sín í samræmi við samþykktir sjóðsins.