Alþingi samþykkir að jafna örorkubyrði lífeyrissjóðanna.

Til að greiða fyrir samkomulagi Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins um áframhaldandi gildi kjarasamninga, gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingu hinn 15. nóvember 2005 þar sem sagði að ríkisstjórnin væri reiðubúin að greiða fyrir jöfnun á örorkubyrði milli lífeyrissjóða á samningssviði Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins með framlagi sem svarar til hluta af tryggingagjaldsstofni og kæmi að fullu til framkvæmda á þremur árum. Alþingi hefur nú samþykkt að ákveðið hlutfall af  tryggingagjaldi verði ráðstafað til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóðanna. Áætlað að framlag þetta muni nema á næsta ári um 940 m.kr.

Jöfnun örorkubyrði lífeyrissjóða mun eiga sér stað til frambúðar, en mun hins vegar eingöngu ná til lífeyrissjóða á samningsviði  samningssviði Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins fyrstu þrjú árin. Frá og með 1. janúar 2010 mun framlagið hins vegar ná til allra lífeyrissjóða.

 

Í samræmi við fyrrgreinda yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 15. nóvember 2005 verður það hlutfall af gjaldstofni tryggingagjalds, sem ráðstafað verður til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða, 0,15% árið 2007, 0,20% árið 2008 og 0,25% árið 2009. Miðað við áætlaðan gjaldstofn tryggingagjalds ársins 2006 verður framlagið um 940 millj. kr. í október 2007 og 1.336 millj. kr. í október 2008 miðað við áætlaðan gjaldstofn tryggingagjalds árið 2007. Áætlun gjaldstofns tryggingagjalds vegna ársins 2008 liggur ekki fyrir en miðað við áætlun fyrir árið 2007 yrði framlagið um 1.670 millj. kr. í október 2009.

 

Örorkulífeyrisþegum hjá lífeyrissjóðum hefur fjölgað ört undanfarin ár og voru þeir orðnir tæplega 13.000 í desember 2005. Fjölgunin hefur numið 750–800 sjóðfélögum árlega undanfarin þrjú ár. Þá fer meðalaldur öryrkja lækkandi og er nú um 50 ár, en lækkandi meðalaldur öryrkja þýðir jafnframt aukin heildarútgjöld lífeyriskerfisins. Árið 2004 var örorkulífeyrir alls 29% af greiddum lífeyri lífeyrissjóða á almennum vinnumarkaði, eða tæpir 4 milljarðar króna, og um 5 milljarðar króna í lífeyriskerfinu í heild. Örorkubyrðin leggst misjafnlega þungt á lífeyrissjóði og getur numið allt frá 6% til 43% af lífeyrisgreiðslum sjóðanna. Í ljósi þess hve misþungt örorkulífeyrisgreiðslur falla á lífeyrissjóði þótti rétt að jafna þann aðstöðumun sem sjóðirnir búa við með þessum hætti.

 


Sjá hér breytingar á lögum um tryggingagjald