Almenni lífeyrissjóðurinn skilar mjög góðri ávöxtun.

Ætlaðar eftirlaunagreiðslur sjóðsins hækkuðu um allt að 30% á árinu 2006. Lagt er til að ellilífeyrisgreiðslur hækki um 4,0% vegna góðrar stöðu lífeyrisdeildar. Sjóðsfélagar voru 29.446 og hafði fjölgað um 4.389 manns á árinu.

Afkoma Almenna lífeyrissjóðsins vegna ársins 2006 var mjög góð. Reikningar sjóðsins voru staðfestir á fundi stjórnar í mars, en ársfundur sjóðsins verður haldinn 26. apríl næstkomandi. Heildareignir sjóðsins í árslok voru 83 milljarðar og jukust um 29% á árinu 2006. Eignirnar skiptust þannig að í séreignarsjóði voru 47 milljarðar og 36 milljarðar í samtryggingarsjóði. Ársreikninginn má finna á heimasíðu Almenna lífeyrissjóðsins, www.almenni.is.

 Önnur meginatriði í ársreikningnum eru þessi:

1.       Ávöxtunarleiðir skiluðu mjög góðri ávöxtun 2006. Ævisafn I hækkaði mest, um 22% sem jafngildir 14% raunávöxtun. Aðrar ávöxtunarleiðir hækkuðu um 10 til 21%.

 

2.       Greidd iðgjöld til sjóðsins voru samtals 6,6 milljarðar króna og hækkuðu iðgjöldin um 25% frá fyrra ári.

 

3.       Lífeyrisgreiðslur voru alls 1,1 milljarður króna og skiptust þannig að 553 milljónir voru greiddar úr séreignarsjóði og 561 milljón úr samtryggingarsjóði.

 

4.       Lífeyrissjóðslán voru veitt til 242 sjóðfélaga en heildarfjárhæð afgreiddra lána var 1.532 milljónir króna.

 

5.       Eignir tryggingadeildar, sem greiðir örorku-, maka- og barnalífeyri, voru 9,1% umfram skuldbindingar og því færast 1170 milljónir úr henni í eftirlaunadeild, sem ávaxtar fé sjóðfélaga til að tryggja þeim ellilífeyrisgreiðslur til æviloka.

 

6.       Eignir lífeyrisdeildar, sem greiðir ellilífeyri, voru 6,5% umfram áfallnar skuldbindingar. Vegna góðrar stöðu deildarinnar leggur stjórn sjóðsins til að ellilífeyrisgreiðslur hækki um 4,0%. Einnig leggur stjórnin til að áunnin og flutt lífeyrisréttindi í tryggingadeild hækki um sama hlutfall.

  

Frábrugðinn öðrum sjóðum

Fyrirkomulag samtryggingarsjóðs Almenna lífeyrissjóðsins er frábrugðið öðrum lífeyrissjóðum að því leyti að sjóðurinn lofar ekki ellilífeyrisréttindum fyrr en sjóðfélagar hefja töku ellilífeyris. Sveiflur í ávöxtun breyta því ekki áunnum lífeyrisréttindum eins og algengast er í öðrum lífeyrissjóðum. Sjóðurinn reiknar hins vegar áætlaðar ellilífeyrisgreiðslur sjóðfélaga á hverjum degi út frá nýjustu upplýsingum um eignir og ávöxtun. Á árinu 2006 hækkuðu áætlaðar eftirlaunagreiðslur að meðaltali um 25% (misjafnt eftir aldri sjóðfélaga) vegna góðrar ávöxtunar og jákvæðrar afkomu tryggingadeildar.

 

Almenni lífeyrissjóðurinn er öllum opinn en hann er jafnframt starfsgreinasjóður arkitekta, leiðsögumanna, lækna, hljómlistamanna og tæknifræðinga. Lífeyrissjóðir þessara stétta hafa sameinast Almenna lífeyrissjóðnum og greiða félagar þeirra lágmarksiðgjöld í hann. Almenni lífeyrissjóðurinn er opinn fyrir alla og hentar þeim sem geta valið lífeyrissjóð og vilja greiða viðbótariðgjöld til að auka ráðstöfunartekjur sínar á eftirlaunaárunum.