Sjóðfélagar í Almenna lífeyrissjóðnum samþykktu á sjóðfélagafundi 29. nóvember s.l. tillögu stjórnar um að sjóðurinn sameinist Lífeyrissjóði lækna um næstu áramót. Sjóðfélagar Lífeyrissjóðs lækna höfðu áður samþykkt sambærilega tillögu í póstkosningu sem fram fór í október. Sjá frekari frétt hér á síðunni þann 14. nóvember s.l.
Heiti sameinaðs sjóðs er Almenni lífeyrissjóðurinn og verður hann 5. stærsti lífeyrissjóður landsins. Heildareignir verða rúmlega 60 milljarðar kr. og skráðir sjóðfélagar verða í kringum 25.000. Rekstraraðili sjóðsins er Eignastýring Íslandsbanka.
Aðild að Almenns lífeyrisjóðnum er öllum opin en jafnframt er sjóðurinn starfsgreinasjóður arkitekta, leiðsögumanna, lækna, tónlistarmanna og tæknifræðinga. Sjóðfélagar geta valið á milli fjögurra Ævisafna, sem hvert er með mismunandi ávöxtun og áhættu.
Lífeyrissjóður lækna var stofnaður 1965 og hafði starfað í núverandi mynd í 40 ár. Aðrir sjóðir sem hafa sameinast í Almenna lífeyrissjóðinn eru Lífeyrissjóður arkitekta stofnaður 1967, Lífeyrissjóður starfsmanna SÍF stofnaður 1968, Lífeyrissjóður FÍH stofnaður 1970, Lífeyrissjóður Félags leiðsögumanna stofnaður 1977, Lífeyrissjóður Tæknifræðingafélags Íslands stofnaður 1965 og ALVÍB stofnaður 1990.