Á aðalfundi Lífeyrissjóðs Norðurlands, sem haldinn var 30. maí, var samþykkt ályktun um að kostir og gallar aldurstengdrar réttindaávinnslu yrðu kannaðir.
Fram til þessa hefur réttindaávinnsla verið jöfn hjá flestum lífeyrissjóðum á Íslandi, þ.e. ungur greiðandi fær sömu réttindi og gamall greiðandi fyrir sama iðgjald, þó iðgjald unga greiðandans eigi eftir að ávaxtast mun lengur. Á móti kemur að ungi sjóðfélaginn eldist auðvitað og nýtur því ríkulegrar réttinda síðustu starfsárin. Aðalfundur Lífeyrissjóðs Norðurlands samþykkti eftirfarandi ályktun: "Aðalfundur Lífeyrissjóðs Norðurlands, haldinn 30. maí 2001, beinir því til stjórnar sjóðsins að kannaðir verði kostir og gallar réttindakerfis með aldurstengdri réttindaávinnslu. Í því sambandi verði sérstaklega skoðað hvort hægt er að endurreikna áfallin réttindi sjóðfélaga úr núverandi kerfi jafnrar réttindaávinnslu yfir í nýtt kerfi með aldurstengdri réttindaávinnslu, án þess að komi til skerðingar réttinda. Stefnt skal að því að þessari skoðun verði lokið fyrir árslok. Verði þessi kostur talinn fýsilegur, skal stefnt að því að kynna hann í byrjun næsta árs og afgreiða tillögur um þessa breytingu á ársfundi sjóðsins árið 2002."