Í lok síðasta árs voru heildareignir í í aldursháðu réttindakerfi 79.645 m. kr. eða um 8,1% af heildareignum lífeyrissjóðanna. Mikil breyting hefur átt sér stað á þessu ári og er þetta hlutfall nú komið upp í 28,5% ef miðað er við heildareignir lífeyrissjóðanna í fyrra. Á sama tíma hafa eignir í kerfi jafnrar réttindaávinnslu, þ.e. réttindin eru óháð aldri sjóðfélagans, lækkað úr 63,9% í 43, 5% af heild.
Heildareignir lífeyrissjóðanna námu í fyrra 986.535 m.kr. Heildareignir sjóðanna í samtryggingardeildum námu alls 904.574 m.kr. eða um 91,7% og í séreignardeildum 81.961 m.kr. eða um 8,3%. Réttindauppbygging sjóðanna var þessi um síðustu áramót:
Í samtryggingardeildum nam hlutfall jafnrar réttindaávinnslu í lok síðasta árs 63,9% en þar er Lífeyrissjóður verzlunarmanna stærstur.
Í hlutfallskerfinu, þ.e. lífeyrir er ákveðinn hluti af launum, námu eignirnar 19,7% en þar er Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins B- deild, stærstur.
Í aldursháðu kerfi, þ.e. iðgjöld gefa mismunandi réttindi eftir aldri sjóðfélagans, námu eignirnar alls um 8,1% af heild en þar var Lífeyrissjóðurinn Lífiðn stærstur.
Á þessu ári hafa nokkrir lífeyrissjóðir á almennum vinnumarkaði breytt samþykktum sínum og tekið upp aldursháð réttindakerfi í stað kerfi með jafna réttindaávinnslu.
Þar munar mestu um Gildi lífeyrissjóður, sem varð til 1. júní s.l. við sameiningu Lífeyrissjóðsins Framsýnar og Lífeyrissjóðs sjómanna. Gildi er nú stærstur lífeyrissjóða í aldursháðu réttindakerfi.
Aðrir lífeyrissjóðir hafa fylgt í kjölfarið eins og t.d. Lífeyrissjóður Austurlands, Lífeyrissjóður Vestmannaeyja og Lífeyrissjóður Suðurlands, sem varð til við sameiningu Lífeyrissjóðs Suðurnesja og Lífeyrissjóðs Suðurlands.
Er nú hlutfall í aldursháðu réttindakerfi komið upp í 28,5% í stað 8,1%. Á sama tima hefur hlutfall jafnrar réttindaávinnslu lækkað úr 63,9% í 43,5%. Allar líkur eru á því að þessi þróun muni halda áfram á næstu misserum, þ.e. að lífeyrissjóðir á almennum vinnumarkaði taki upp aldursháð réttindakerfi í stað jafnrar réttindaávinnslu.