Aldrei meiri erlend verðbréfakaup en í fyrra eða rúmlega 45 milljarða króna.

Í samantekt tölfræðisviðs Seðlabanka Íslands kemur fram að nettókaup erlendra verðbréfa voru samtals 5.760 m.kr. í desember samanborið við nettókaup fyrir um 2.139 m.kr. í sama mánuði árið 2002. Ásókn fjárfesta í erlend verðbréf jókst verulega árið 2003 og hafa nettókaupin aldrei verið svo mikil frá því kerfisbundið var byrjað að safna upplýsingum um erlend verðbréfakaup árið 1994. 

Árið 2003 voru nettókaup alls 45.530 m.kr. samanborið við  25.709 m.kr. árið 2002, 3.716 m.kr. árið 2001 og 40.536 m.kr. árið 2000.

 

Ásókn fjárfesta í erlend verðbréf jókst verulega árið 2003 og hafa nettókaupin aldrei verið svo mikil frá því kerfisbundið var byrjað að safna upplýsingum um erlend verðbréfakaup árið 1994.

 

Nettókaup á hlutdeildarskírteinum í erlendum verðbréfasjóðum voru alls 34.298 m.kr. árið 2003. Nettókaupin á hlutdeildarskírteinum árið 2003 eru aðeins minni en árið 2000 þegar mest var keypt af hlutdeildarskírteinum í erlendum verðbréfasjóðum.

 

Nettókaup á hlutabréfum í erlendum fyrirtækjum voru alls 6.185 m.kr. árið 2003, samanborið við 2.070 m.kr. árið 2002.  Þó að kaup á einstökum hlutabréfum aukist milli áranna 2002 og 2003 þá einskorðast kaupin aðallega við verðbréfasjóði. Meiri áhugi á verðbréfasjóðum fremur en hlutabréfum er líklega tilkomin vegna þess að fjárfestar vilji meiri áhættudreifingu í eignasöfnum sínum. 

 

Að sögn Seðlabankans má fastlega gera ráð fyrir að langstærstu aðilarnir sem standa að baki erlendu verðbréfakaupunum séu lífeyrissjóðirnir. Til fróðleiks má geta þess að erlend verðbréfaeign lífeyrissjóðanna nam í lok nóv. 2003 um 152,2 ma.kr. eða um 19,2% af hreinni eign lífeyrissjóðanna samanborið við 102,9 ma.kr. eða um 15,2% af hreinni eign lífeyrissjóðanna í árslok 2002.

 

Eftir lækkanir þrjú ár í röð, hækkuðu helstu hlutabréfavísitölur í heiminum árið 2003. Þannig hækkaði:

 

Bandaríkjavísitala Morgan Stanley um 26,8%,

Evrópuvísitala Morgan Stanley um 16,5%  og

Asíuvísitala Morgan Stanley um 22,5%.

 

Þá hækkaði heimsvísitala hlutabréfa Morgan Stanley um 30% í dollurum en bandaríski markaðurinn vegur þungt í vísitölunni. Þegar tölur um góða ávöxtun fjárfestinga ársins 2003 eru skoðaðar ber hins vegar að hafa í huga að mikil hreyfing var á gjaldeyrismarkaði árið 2003. Sem dæmi um það má nefna að Bandaríkjadollari lækkaði um 11,9% gagnvart íslensku krónunni en Evran hækkaði um 6% gagnvart íslensku krónunni. Gengisvísitala gengisskráningarvogar lækkaði um 1,19% árið 2003. Af þessu má álykta að ávöxtun erlendu verðbréfanna var mjög góð hvort heldur sem er í íslenskum krónum eða erlendri mynt.