Aldrei meiri erlend verðbréfakaup

Kaup innlendra fjárfesta í erlend verðbréf jukust verulega 2004 og hafa nettókaupin aldrei verið meiri frá því kerfisbundið var byrjað að safna upplýsingum um erlend verðbréfakaup  árið 1994.  Nettókaup á erlendum verðbréfum jukust um 19,8 ma.kr. milli áranna 2002 og 2003. Aukningin í nettókaupum á erlendum verðbréfum milli áranna 2003 og 2004 er mun meiri eða sem nemur 30,7 ma.kr.

Í samantekt tölfræðisviðs Seðlabanka Íslands kemur fram að nettókaup erlendra verðbréfa voru samtals 10.885 m.kr. í desember samanborið við nettókaup fyrir um 5.760 m.kr. í sama mánuði árið 2003.

 Þróun einstakra undirliða í desember var eftirfarandi:

·  Nettókaup á hlutdeildarskírteinum í erlendum verðbréfasjóðum námu 8.598 m.kr. en nettókaup í sama mánuði árið 2003 námu 4.284 m.kr.

·   Nettókaup á erlendum hlutabréfum námu 2.377 m.kr. en nettókaup í sama mánuði árið 2003 námu 1.450 m.kr.

·  Nettósala skuldabréfa nam 90 m.kr. en nettókaup í sama mánuði árið 2003 námu 99 m.kr.

 Erlend verðbréfakaup árið 2004:

 Árið 2004 voru nettókaup alls 76.251 m.kr. samanborið við:

 45.530 m.kr. árið 2003,

25.709 m.kr. árið 2002,

3.716 m.kr. árið 2001,

40.536 m.kr. árið 2000.

Aðilar að baki kaupunum:

Fastlega má gera ráð fyrir að langstærstu aðilarnir sem standa að baki erlendu verðbréfakaupunum séu lífeyrissjóðirnir. Til fróðleiks sést hér þróun í erlendri verðbréfaeign lífeyrissjóðanna:

um 210,6 ma. kr. eða um 21,7% af hreinni eign lífeyrissjóðanna í lok nóv. 2004,

um 159,9 ma.kr. eða um 19,4% af hreinni eign lífeyrissjóðanna í árslok 2003,

um102,9 ma.kr. eða um 15,2% af hreinni eign lífeyrissjóðanna árslok 2002.

En þrátt fyrir að lífeyrissjóðirnir hafi á síðasta ári keypt  erlend verðbréfi fyrir um 51 ma.kr. frá ársbyrjun 2004 fram til loka nóvember þá skýrir það ekki nema að hluta til erlend verðbréfakaup að fjárhæð 76,3 ma.kr. árið 2004. Til að finna það sem upp á vantar þarf að skoða reikninga innlánsstofnana en samkvæmt þeim var var reikningsstaðan undir liðnum erlend hlutabréf um:

42,4 ma.kr. í árslok 2004

16,4 ma.kr. í árslok 2003

10,7 ma.kr. í árslok 2002

4,1 ma.kr. í árslok 2001

Erlend verðbréfaeign innlánsstofnana hækkaði því umtalsvert milli áranna 2003 og 2004 eða um 26 ma.kr. árið 2004.  Af þessu má ráða að það fjármagn sem lá á lausu í bankakerfinu árið 2004 hafi að hluta til verið ávaxtað með erlendum verðbréfakaupum til lengri eða skemmri tíma.