Ágætur fundur um siðferðislegar fjárfestingar.

Nú í vikunni efndu Landssamtök lífeyrissjóða til fundar um "Siðferðislegar fjárfestingar (Socially responsible investing SRI)". Fyrirlesarar voru þau Ketill Berg Magnússon, kennari við Háskólann í Reykjavík og Sólveig Stefánsdóttir, viðskiptafræðingur hjá Virðingu h.f. Fjölmenni var á fundinum og voru umræður fjörlegar. 

Ketill Berg Magnússon fjallaði almennt um viðskiptasiðfræði og um siðferðilega ábyrgð lífeyrissjóða og Sólveig Stefánsdóttir, viðskiptafræðingur, fjallaði hins vegar um siðferðilegar fjárfestingar og hvers vegna eru þær væru kostur fyrir íslenska lífeyrissjóði.

Hér á landi hafa ekki verið miklar umræður enn sem komið er um siðferðislegar fjárfestingar ólíkt því sem er t.d. víða í nágrannalöndunum, t.d. í Bretlandi og Svíþjóð, þar sem stofnanafjárfestar, einkum þó lífeyrissjóðir, hafa sumir hverjir tekið mið af siðferðislegum fjárfestingum í ákvörðunum sínum.

 Ketill B. Magnússon, M.A. - heimspekingur með sérhæfingu í viðskiptasiðfræði og próf í rekstrar og viðskiptafræðum, hefur ritað fjölda greina og haldið fyrirlestra á sviði viðskiptasiðfræði. Hann situr m.a. í ráðgjafateymi Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands sem viðskiptasiðfræðingur.

Sólveig Stefánsdóttir er nýútskrifuð með B.S. próf í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík. Lokaritgerð hennar fjallaði um um siðferðislegar fjárfestingar (socially responsible investing) og hvort þær séu viðeigandi fjárfestingarstefna fyrir íslenska lífeyrissjóði. Ritgerðinni er ætlað að veita greinargóða, hlutlausa lýsingu á fjárfestingarstefnunni, einkum m. t. t. ávöxtunar- og áhættuþátta. Að auki er fjallað um stöðu siðferðislegra fjárfestinga á íslenska markaðinum í ljósi könnunar sem gerð var hjá lífeyrissjóðum. Ritgerðin fékk hæstu einkunn sem gefin var í viðskiptadeildinni nú í vor, eða 9. Að auki má nefna að hún er nú þegar í höndum Siðfræðistofnunnar sem notast við hana í siðfræðilegri greiningu á starfsemi félagasamtaka.