Afar góð afkoma Framtakssjóðs Íslands

Framtakssjóður Íslands skilaði 700 milljóna króna hagnaði á árinu 2010 og á fyrstu fjórum mánuðum ársins 2011 nam hagnaðurinn 1,9 milljörðum króna eða alls 2,6 milljörðum króna á fyrstu sextán starfsmánuðum sínum. Þetta kom fram á aðalfundi sjóðsins í gær. Heildareignir Framtakssjóðs Íslands við árslok 2010 námu um 5,6 milljörðum króna og eigið fé var 4,9 milljarðar króna.

Sextán lífeyrissjóðir stofnuðu Framtakssjóðinn í árslok 2009 til að taka virkan þátt í endurreisn íslensks atvinnulífs eftir efnahagshrunið og við það hefur sannarlega verið staðið. Landsbanki Íslands og VÍS hafa sömuleiðis bæst í hluthafahópinn.

Framtakssjóðurinn fjárfesti á fyrstu fjórtán mánuðum starfstíma síns í sex fyrirtækjum fyrir um 17,6 milljarða króna og nú eru í eignasafni sjóðsins nokkur af öflugustu fyrirtækjum landsins:

 

  • Icelandair Group (29% eignarhlutur)
  • Icelandic Group (81% eignarhlutur)
  • Vodafone (79% eignarhlutur)
  • SKÝRR (79% eignarhlutur)
  • Húsasmiðjan Icelandair Group (100% eignarhlutur)
  • Plastprent (100% eignarhlutur).

 

Samanlögð velta þessara fyrirtækja nam tæplega 300 milljörðum króna árið 2010.

 

Samanlagður hagnaður þeirra fyrir afskriftir og vexti (EBITDA) var um 23 milljarðar króna og heildarhagnaður ársins var um 6,4 milljörðum króna.

 

Hjá fyrirtækjunum starfa tæplega 8.000 manns, þar af um 3.600 á Íslandi.