Áfangaskýrsla um starfsendurhæfingu komin út.

Þann 5. júní 2002 skipaði heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra starfshóp um starfsendurhæfingu. Nefndin hefur nú skilað frá sér ítarlegri áfangaskýrslu. Meðal tillagna starfshópsins er að leggja til að rætt verði við hagsmunaaðila um að þeir komi að skipulagningu og fjármögnun sameiginlegs starfsendurhæfingarkerfis með miðstöð starfsendurhæfingar, þar sem unnt verði að meta endurhæfingarþörf og/eða vinnufærni og vísa í endurhæfingarúrræði þegar við á.

Starfshópurinn  um starfsendurhæfingu er skipaður í samræmi við samþykktir málþings  um starfsendurhæfingu, sem  haldið  var  á  Grand Hótel  Reykjavík  þann  13. nóvember 2001, um að þeir aðilar í þjóðfélaginu sem koma með beinum eða óbeinum hætti að starfsendurhæfingu þurfi nauðsynlega að samhæfa krafta sína, fjármuni og framtíðarsýn. Í skipunarbréfi kemur fram að tillögur hópsins ættu að lúta að bættri þjónustu á sviði starfsendurhæfingar og hafa að leiðarljósi þarfir þeirra einstaklinga sem þurfa aðstoð við að fóta sig á nýjum eða breyttum starfsvettvangi.

 

Starfshópurinn kynnti sér skipulag starfsendurhæfingar og framboð úrræða til starfsendurhæfingar og endurmenntunar hér á landi og einnig í Svíþjóð, Noregi og Finnlandi. Rætt var um hvernig þessum málum yrði best fyrir komið hér á landi. Efni skýrslu þessarar var kynnt fulltrúum Öryrkjabandalags Íslands og Þroskahjálpar.

 

 

Megin niðurstöður starfshópsins eru að:

 

  1. starfsendurhæfing sé áhrifarík leið til að fyrirbyggja ótímabæra örorku, ef hægt er að grípa snemma inn í óvinnufærniferlið.
  2. endurskipuleggja þurfi starfsendurhæfingu hér á landi, þannig að það fé sem til hennar er varið nýtist sem best og að auka þurfi framboð á henni og hafa sveigjanlegt skipulag sem bregst fljótt við breytingum á vinnumarkaði.
  3. leggja til að rætt verði við hagsmunaaðila um að þeir komi að skipulagningu og fjármögnun sameiginlegs starfsendurhæfingarkerfis með miðstöð starfsendurhæfingar, þar sem unnt verði að meta endurhæfingarþörf og/eða vinnufærni og vísa í endurhæfingarúrræði þegar við á.
  4. endurskoða þurfi lagaákvæði um endurhæfingarlífeyri, þannig að endurhæfingarlífeyrir geti nýst þeim sem þarfnast langvarandi starfs-endurhæfingar.
  5. þörf sé á að breyta læknisvottorðum vegna fjarvista frá vinnu, þannig að þau endurspegli hvort þörf kunni að vera á starfsendurhæfingu.

 Í starfshópinn voru skipaðir:

  • Sigurður Thorlacius, tryggingayfirlæknir, formaður, tilnefndur af Trygginga-stofnun ríkisins
  • Guðmundur Hilmarsson, tilnefndur af Alþýðusambandi Íslands
  • Gunnar Kr. Guðmundsson, endurhæfingarlæknir, tilnefndur af Samstarfsráði um endurhæfingu
  • Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri, tilnefndur af Landsamtökum lífeyris-sjóða
  • Ragnar Árnason, lögfræðingur, tilnefndur af Samtökum atvinnulífsins
  • Sigurður P. Sigmundsson, hagfræðingur, tilnefndur af Vinnumálastofnun
  • Þór G. Þórarinsson, skrifstofustjóri, tilnefndur af félagsmálaráðuneyti

 


Hér má skoða áfangaskýrslu nefndarinnar um starfsendurhæfingu.