Af fræi er skógurinn vaxinn!

Þannig hljóðar fyrirsögn í auglýsingu Lífeyrissjóðs Norðurlands, þar sem kynntar eru helstu niðurstöður úr ársreikningi sjóðsins fyrir s.l. ár.

Þeir norðanmenn geta þess að skógrækt og söfnun lífeyrisréttinda séu af sama meiði og með framtíðina í huga sé sáð til nýrra skóga. Á sama hátt vaxi réttindin í lífeyrissjóðum ár frá ári og veiti sjóðfélögum fjárhagslegt öryggi við áföll að lokinni starfsævi! Árið 1999 var Lífeyrissjóði Norðurlands ákaflega hagstætt og þannig nam raunávöxtunin 16,2% sem er væntanlega með því allra hæsta hjá lífeyrissjóðunum fyrir s.l. ár. Raunávöxtun fyrir s.l. 5 ár var líka mjög góð eða að meðaltali 10,7%, sem er í raun eðlilegri mælikvarði í samanburði milli sjóða. Eignir Lífeyrissjóðs Norðurlands námu í lok síðasta árs 18.733 m.k.r og höfðu aukist um 27% milli ára. Rekstrarkostnaður sem hlutfall af eignum nam einungis 0,1% og sjóðurinn átti 11% umfram heildarskuldbindingar í árslok, sem merkir að sjóðurinn mun bæta lífeyrisréttindin á árinu. Þá hafa eignir í erlendum gjaldmiðlum aukist úr 22% í 27% milli ára. Framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs Norðurlands er Kári Arnór Kárason og stjórnarformaður er Jón Hallur Pétursson..