Aðalfundur Reiknistofu lífeyrissjóða boðaður 19. maí n.k.

Aðalfundur RL verður haldinn föstudaginn 19. maí n.k. í Vestmannaeyjum. Reiknistofa lífeyrissjóða er í eigu 15 lífeyrissjóða.

Hlutverk Reiknistofunnar er að sjá um að lífeyrissjóðir geti fengið alla nauðsynlega tölvuþjónustu, s.s. vegna réttindabókhalds, verðbréfakerfis og lífeyrisgreiðslukerfis. Starfsfólk RL sér m.a. um ráðgjöf, aðstoð við tengingar, afritun, gagnaflutning og forritun, svo og kennslu og nauðsynleg námskeið fyrir notendur kerfisins, sem nær einvörðungu eru lífeyrissjóðir. Eigendur RL eru 15 lífeyrissjóðir og þar af eiga fjórir lífeyrissjóðir yfir 10% eignarhlut. Þessir sjóðir eru: Lífeyrissjóðurinn Framsýn (22,5%), Sameinaði lífeyrissjóðurinn (18,0%), Lífeyrissjóðurinn Lífiðn (11,0%) og Lífeyrissjóður Norðurlands (10,5%). Reiknistofa lífeyrissjóða er eins konar samlag lífeyrissjóðanna, þ.e.a.s. eignarhlutir eru stilltir af í samræmi við notkun sjóðanna. RL var stofnuð 1984 og eru starfsmenn þess nú 8 talsins, þar af vinna þrír við forritunargerð, tveir við að þjónusta notendur og tveir við Lífeyrisdeild RL. Framkvæmdastjóri Reiknistofu lífeyrissjóða er Jakob H. Ólafsson og formaður stjórnar er Örn Arnþórsson, skrifstofustjóri Lífeyrissjóðsins Framsýnar.