Ýmsar spurningar hafa vaknað hjá félögum í lífeyrissjóðum í framhaldi af ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að ríkið eignist 75% hlut í Glitni. Eðlilegt er að spurt sé um möguleg áhrif þessa á samtals um 5,5% eignarhluti lífeyrissjóða í bankanum, sem svarar til um 13 milljarða króna á gengi föstudagsins 26. september 2008.
1. Breytt eignarhald Glitnis hefur eitt og sér hvorki áhrif á rekstur lífeyrissjóða né lífeyrisréttindi sjóðfélaga.
2. Ástand á fjármálamörkuðum yfirleitt er meira áhyggjuefni en tíðindin af Glitni.
3. Lífeyrissjóðir meta áhrif af heildarfjárfestingum sínum og einstökum fjárfestingum til langs tíma. Hvað varðar eignarhluti í Glitni er ótímabært að meta hverju þeir muni skila þegar til lengri tíma er litið.
4. Fjárfestingastefna lífeyrissjóða er í stöðugri endurskoðun, ekki síst á þeim tímum þegar óvenjulegt ástand ríkir á fjármálamörkuðum.