Ábyrgðasjóður launa taki til viðbótarlífeyrissparnaðarins.

Landssamtök lífeyrissjóða hafa beint þeim eindregnu tilmælum til stjórnar Ábyrgðasjóðs launa að við endurskoðun laga um sjóðinn verði skýrt kveðið á um að Ábyrgðasjóðurinn taki ábyrgð á iðgjöldum til viðbótarlífeyrissparnaðar sem tapast vegna gjaldþrota.

Stjórn Landssamtaka lífeyrissjóða samþykkti á stjórnarfundi, sem haldinn var fyrir nokkru að beina þeim eindregnu tilmælum til stjórnar Ábyrgðasjóðs launa að við endurskoðun laga nr. 53/1993, sem nú er unnið að á vegum stjórnar sjóðsins, verði skýrt kveðið á um að Ábyrgðasjóðurinn taki ábyrgð á iðgjöldum til viðbótarlífeyris- sparnaðar sem tapast vegna gjaldþrota með hliðstæðum hætti og nú tíðkast gagnvart lífeyrissjóðsiðgjöldum. Ljóst er að það er þjóðhagslega hagkvæmt að hvetja þjóðina til viðbótarlífeyris- sparnaðar. Það dregur bæði úr einkaneyslu, minnkar geigvænlegan viðskiptahalla, dregur úr útgjöldum ríkisins til lífeyrismála þegar til lengri tíma litið og minnkar þannig skattþörf hins opinbera. Það væri því mikið áfall, ef viðbótarlífeyrissparnaðurinn drægist saman hjá þjóðinni vegna þeirra óvissu sem nú ríkir vegna þess að innheimtuaðgerðum er ekki sinnt markvisst, svo og vegna þess að Ábyrgðasjóður launa tryggir ekki iðgjöld vegna lífeyrisparnaðar, sem kunna að glatast vegna gjaldþrota. Því er lagt til, eins og áður segir, við endurskoðun laga nr. 53/1993 verði skýrt kveðið á um að sjóðurinn taki ábyrgð á iðgjöldum til viðbótarlífeyrissparnaðar með hliðstæðum hætti og nú tíðkast gagnvart lífeyrisjóðsiðgjöldum.