Ábyrgðasjóður launa ber ekki ábyrgð á iðgjöldum vegna viðbótartryggingaverndar.

Ábyrgðasjóður launa ber ekki ábyrgð á iðgjöldum sem varið er til viðbótartryggingaverndar og sem kunna að glatast við gjaldþrot.

Í 1. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota, nr. 53/1993, er kveðið á um að sjóðurinn ábyrgist m.a. kröfu viðurkennds lífeyrissjóðs vegna lífeyrisiðgjalda á hendur vinnuveitenda við gjaldþrotaskipti. Ábyrgðin takmarkist þó við lágmark samkv. 4. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Lágmarksiðgjaldið er a.m.k. 10% af viðurkenndum iðgjaldsstofni, hvort sem hann er dagvinnulaun, kaupviðmiðun, heildarlaun eða reiknað endurgjald. Nú hafa lög nr. 55/1980 verið felld úr gildi með nýjum lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Samkvæmt þeim lögum er lágmarksiðgjald til lífeyrissjóðs a.m.k. 10% af iðgjaldsstofni en jafnframt er gert ráð fyrir að hægt sé að greiða lífeyrisiðgjald til viðbótartryggingaverndar. Þá er gert ráð fyrir því að sjóðfélagi geti ráðstafað til annars aðila en þess lífeyrissjóðs sem tekur við iðgjaldi vegna hans þeim hluta iðgjalds sem renna skal til séreignar og þeim hluta iðgjalds sem renna skal til viðbótartryggingaverndar. Með hliðsjón af ofanrituðu óskaðu Landssamtök lífeyrissjóða þann 14. mars s.l. eftir áliti stjórnar Ábyrgðasjóðs launa, hvort sjóðurinn ábyrgist öll lífeyrisiðgjöld samkv. núgildandi lífeyrissjóðalögum sem renna skulu til lífeyrissjóða, hvort sem um er að ræða til lágmarkstryggingaverndar eða til viðbótartryggingaverndar. Töldu LL ekki síst nauðsynlegt að fá álit stjórnar Ábyrgðasjóðsins, þar sem algengt er nú orðið að gerðir séu kjarasamningar og ráðningarsamningar um aukna hlutdeild atvinnurekenda í lífeyrisgreiðslum vegna viðbótartryggingaverndar. Í svari Ábyrgðasjóðs launa segir að stjórn sjóðsins hafi fjallað um erindi Landssamtaka lífeyrissjóða og sé það niðurstaða hennar að skilja beri c.lið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 53/1993 um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota eftir orðanna hljóðan á þann veg að ábyrgð sjóðsins taki aðeins til lágmarksiðgjalds samkvæmt lögum br. 129/1997. Samkvæmt þessu svari er ljóst að Ábyrgðasjóður launa ber ekki ábyrgð á iðgjöldum sem renna til viðbótartryggingaverndar og sem kunna að glatast við gjaldþrot. Stjórn Landssamtaka lífeyrissjóða mun fjalla um svar Ábyrgðasjóðs launa á næsta stjórnarfundi sínum.