Ætla má að raunávöxtun lífeyrissjóðanna hafi að jafnaði verið 7,2% á árinu 2014. Ávöxtun samtryggingardeilda hafi verið 7,4% og séreignardeilda 5%. Þetta kom fram á upplýsingafundi Landssamtaka lífeyrissjóða með blaða- og fréttamönnum í dag.
Nokkrir lífeyrissjóðir vinna enn að ársuppgjörum sínum og því liggja endanlegar ávöxtunartölur ekki fyrir en ljóst er engu að síður þeir skiluðu í heild góðri afkomu 2014.
Tryggingafræðileg staða sjóðanna hefur að sama skapi batnað en beðið er úttektar tryggingastærðfræðinga á því hver hún nákvæmlega er. Ljóst er samt að almennu lífeyrissjóðirnir (sjóðir án ábyrgðar launagreiðenda) eiga nú fyrir skuldbindingum sínum. Staða opinberu sjóðanna hefur batnað líka.
Raunávöxtun samtryggingarsjóða var að jafnaði 4% á ári undanfarna tvo áratugi (1993-2014) og 5,1% að jafnaði á ári undanfarin fimm ár (2010-2014).
Lífeyrissjóðir landsmanna áttu í lok árs 2014 alls um 2.920 milljarða króna, þar af 2.235 í innlendum verðbréfum og 685 milljarða í erlendum verðbréfum.
Eignir lífeyrissjóðanna svara nú til hálfrar annarrar þjóðarframleiðslu Íslendinga. Erlendar eignir þeirra jukust hlutfallslega á árinu 2014, annars vegar vegna verðhækkana og hins vegar vegna lágrar verðbólgu. Erlend verðbréf í íslenskum krónum hækkuðu mest og skýra að hluta góða afkomu lífeyrissjóða.
Erlendar eignir lífeyrissjóðanna eru engu að síður hlutfallslega fremur litlar í alþjóðlegu samhengi. Nefna má sem dæmi að lífeyrissjóðir í Portúgal, Lúxemborg og Eistland eru með frá helmingi upp í þrjá fjórðu hluta eigna sinna erlendis en sambærilegur hlutur íslenskra lífeyrissjóða er um fjórðungur eigna erlendis (tölur frá því í lok árs 2012).
Forystumenn lífeyrissjóða segja óhikað að gjaldeyrishöftin séu „ein mesta ógnin sem að starfsemi sjóðanna steðji“ og ítrekuðu það við blaða- og fréttamenn í dag.