9,61% hrein raunávöxtun hjá Lífeyrissjóði bænda í fyrra. Tryggingafræðileg staða lífeyrissjóðsins batnar verulega.

Ávöxtun sjóðsins á árinu var 14,15% sem jafngildir 9,61% hreinni raunávöxtun. Hrein raunávöxtun árið 2004 var 7,13%. Helstu ástæður betri ávöxtunar en 2004 er sú að erlendir markaðir gáfu betur af sér og mikil hækkun varð á innlendum hlutabréfum. Lítil ávöxtun varð hins vegar á ríkisskuldabréfum. Samkvæmt fjárfestingarstefnu sjóðsins 2006 skal samsetning eigna vera sem næst eftirfarandi hlutföllum: Skuldabréf með ríkisábyrgð 40%, önnur skuldabréf 25%, erlend hlutabréf 25% og innlend hlutabréf 10%. Heimilt er að leggja allt að 15% eigna inn á bundna innlánsreikninga.

Í árslok fékk sjóðurinn sérstakt framlag úr ríkissjóði og bætti það stöðu hans til muna. Gerð var tryggingafræðileg úttekt á sjóðnum miðað við árslok 2005. Endurmetin hrein eign sjóðsins miðað við 3,5% ávöxtun nemur í árslok 2005 18.752mkr. og verðmæti framtíðariðgjalda 4.160 mkr. eða samtals 22.912 mkr. Heildarskuldbindingar nema 21.911 mkr. Sjóðurinn á því 1.001 mkr., eða 4,6%, umfram heildarskuldbindingar. Áfallnar skuldbindingar nema 16.184 mkr. Hagnaður miðað við áfallnar skuldbindingar er því 2.568 mkr., eða 15,9%. Í árslok 2004 voru eignir 9,7% lægri en heildarskuldbindingar og 5,7% lægri en áfallnar skuldbindingar.