80% norrænna fyrirtækja vilja draga úr losun gróðurhúsalofttegunda

Eigendur og stjórnendur fjögurra af hverjum fimm fyrirtækjum á Norðurlöndum stefna að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda eða eru byrjaðir að vinna að því nú þegar. Flest stór norræn fyrirtæki segjast sjá sér hag í því að dregið verði úr losun gróðurhúsalofttegunda. 

Þetta er niðurstaða árlegrar skýrslu sem unnin er á vegum alþjóðlegs verkefnis, Carbon Disclosure Project – CDP, um söfnun upplýsinga frá fyrirtækjum varðandi losun kolefnis, CO2, í andrúmsloftinu. Verkefnið var sett á laggir árið 2000 og aðild að því eiga alls 534 stofnanafjárfestar um allan heim, þar á meðal danski lífeyrissjóðurinn ATP. CDP safnar upplýsingum frá um 3.000 fyrirtækjum um víða veröld. Þeim fyrirtækjum fjölgar ár frá ári sem sinna þessu verkefni, með þeim árangri að þarna er orðinn til stærsti gagnabanki heimsins um gróðurhúsalofttegundir og losun þeirra.

Það gleður aðstandendur CDP sérstaklega að fleiri fyrirtæki en nokkru sinni fyrr birta opinberlega upplýsingar sínar, sem þau láta CDP í té, eða um 79% þeirra sem svöruðu í ár.  Þannig fer ekki á milli mála að fyrirtækin telja sig hafa hag af því að upplýsa fjárfesta um áhrif mengunar á starfsemina og um stöðu sína og viðhorf, segir yfirmaður greiningardeildar CDP, Daninn Ole Beier Sörensen:

„Menn hefðu í ljósi efnahagskreppunnar geta búist við að fyrirtæki sýndu kolefnislosun í andrúmslofti og orkunýtingu minni áhuga en áður en reynslan kennir annað. Upplýsingar frá fyrirtækjunum sjálfum benda þvert á móti til þess að umhverfismálin séu ofarlega á baugi hjá flestum stórum fyrirtækjum á Norðurlöndum og að áhersla á umhverfismál sé í auknum mæli talin fyrirtækjum til tekna í samkeppni á markaði.“

Því má bæta hér við að Ísland er ekki nefnt í fréttum um þetta mál heldur tekið fram að norrænu fyrirtækin, sem vísað er til, starfi í Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi og Noregi.

Byggt á atp.dk og ipe.com