Að sögn ASIP, Sambands lífeyrissjóða í Sviss, eiga tveir af hverjum fimm lífeyrissjóðum þar í landi ekki fyrir lífeyrisskuldbindingum sínum.
ASIP, sem er samband 1.300 lífeyrissjóða í Sviss með um 2,2 milljónir sjóðfélaga, hefur áætlað að 43% af svissneskum lífeyrissjóðunum eigi ekki fyrir lífeyrisskuldbindingum sínum.
ASIP hefur áætlað að í lok árs 2002 hafi 19% af lífeyrissjóðunum átt allt að 10% yfir lífeyrisskuldbindingum og jafnvægi hafi ríkt á milli skuldbindinga og eignarliða hjá 38% af sjóðunum. Á móti sé áætlað að í tilviki 33% sjóðanna séu skuldbindingar meiri en eignir, sem nemi allt að 10%, en aðeins í tilviki 10% sjóðanna hafi skuldbindingar verið hærri en sem nemur 10% af eignarliðum. Sem dæmi má taka að Siemens hefur tilkynnt að 9% halli hafi verið hjá lífeyrissjóði fyrirtækisins í Sviss í lok síðasta árs.
Verst er þó ástandið hjá lífeyrissjóðum hjá ríki og sveitarfélögum. Þannig hefur hlutfall eigna í samanburði við lífeyrisskuldbindingar hjá lífeyrissjóði opinberra starfsmanna í Zurich fallið niður í 84,8% í lok mars s.l., þó svo að það hlutfall hafi síðan hækkað upp í 88%. Lífeyrissjóður járnbrautarstarfsmanna í Sviss hefur tilkynnt að eignir sjóðsins nemi nú um 80,5% af lífeyrisskuldbindingum. Hallinn upp á 19,5% megi rekja til lélegs fjárfestingarárangurs í fyrra. Í næsta mánuði verða iðgjöld til lífeyrissjóðsins aukin um 3%, sem skiptast jafnt á milli atvinnurekenda og launþega og eru hugsuð til að jafna þennan halla á skuldbindingum og eignum.