120 þúsund krónur að meðaltali í vanskilum.

Vanskil á iðgjöldum til lífeyrissjóða á árinu 2003 námu um 1.300 milljónum króna og lækkuðu um 200 milljónir króna frá árinu á undan þegar þau námu 1.500 milljónum króna. Meðal vanskil námu 120 þús. kr. Þessar upplýsingar koma fram hjá embætti ríkisskattstjóra.

Gjaldendum með lífeyrisiðgjöld í vanskilum eru 11-12 þúsund á síðasta ári sem er fækkun um 7% frá árinu á undan, samkvæmt upplýsingum embættis ríkisskattstjóra, sem lögum samkvæmt hefur eftirlit með skilum á lífeyrisiðgjöldum til lífeyrissjóða frá því ný lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða tóku gildi árið 1998. 

Samkvæmt lögunum ber að skila 10% af launum eða reiknuðu endurgjaldi þeirra sem eru í sjálfstæðri starfsemi í lífeyrissjóð viðkomandi starfsstéttar, en ef ekki er slíkum til að dreifa ber að greiða iðgjöldin til Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda.

Allir sem hafa með höndum sjálfstæða starfsemi ber að reikna sér endurgjald vegna vinnu sinnar.

Eftirlit embættis ríkisskattstjóra felst í því að bera saman upplýsingar í framtölum einstaklinga og af launamiðum við upplýsingar um greiðslur til lífeyrissjóða.

Samkvæmt upplýsingum embættisins eru um 70% af vanskilunum vegna vangoldinna iðgjalda af launum og um 30% vegna reiknaðs endurgjalds.

Meðalvanskil vegna lífeyrisiðgjalda af launum eru um það bil 120 þúsund kr. samanborið við 117 þúsund kr. á árinu á undan og vanskil vegna reiknaðs endurgjalds nema að meðaltali 105 þúsund krónum og lækka úr 107 þúsund krónum að meðaltali árið á undan.

Fram kemur að um helmingur vanskilanna fer til Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda til innheimtu.