10,2% raunávöxtun hjá Lífeyrissjóði Vesturlands í fyrra.

Nafnávöxtun Lífeyrissjóðs Vesturlands var 14,8% á árinu 2005, sem jafngildir 10,2% raunávöxtun. Í árslok 2005 var hrein eign til greiðslu lífeyris rúmir 13,3 milljarðar og hækkaði hún um tæp 18% á milli ára.  Meðaltal hreinnar raunávöxtunar síðastliðin 5 ár er 5,8%. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar síðastliðin 10 ár er 6,5%.

Innlend hlutabréf í eigu sjóðsins hækkuðu um 57,5% á árinu, en vísitala aðallista Kauphallar Íslands hækkaði um 61,3%. Erlend hlutabréfaeign sjóðsins hækkaði um 16,5% í krónum en heimsvísitala hlutabréfa með arðgreiðslu hækkaði um 12,8%. Í árslok nema hlutabréf um 31% af eignum sjóðsins, þ.a. eru 12% í innlendum og 19% í erlendum hlutabréfum.

 

Skuldabréf sjóðsins skiluðu 9,8% nafnávöxtun, sem jafngildir 5,4% raunávöxtun. Sjóðurinn gerir upp skuldabréf miðað við ávöxtunarkröfu á kaupdegi. Vægi skuldabréfa er 67% af fjárfestingum sjóðsins. Bundin innlán, sem nema 2% af fjárfestingum, skiluðu 8,6% nafnávöxtun eða 4,3% raunávöxtun.

 

Iðgjöld ársins námu 708 milljónum, sem er 27,5% aukning frá fyrra ári. Lífeyrisgreiðslur námu 364 milljónum, en það er 12% hækkun frá fyrra ári.

 

Samkvæmt tryggingafræðilegri úttekt sem miðast við stöðu sjóðsins í lok árs 2005 eru eignir sjóðsins 2,0% umfram heildarskuldbindingar. Er það talsvert betri staða en árið 2004 en þá var staðan neikvæð um 2,1%. Að þessu sinni var í úttektinni tekið fullt tillit til örorkustaðla sem byggjast á rauntölum fyrir 17 lífeyrissjóði árin 1998-2002.