Í kjarasamningi, sem gerður var 13. desember 2001 á milli Alþýðusambands Íslands annars vegar og Samtaka atvinnulífsins hins vegar, er að finna ákvæði um viðbótarframlag í séreign. Frá og með 1. júlí 2002 munu vinnuveitendur greiða 1% framlag í séreignardeild þess lífeyrissjóðs sem viðkomandi launamaður á aðild að nema launamaður ákveði annað. Þetta ákvæði á eingöngu við þá launamenn innan ASÍ sem ekki hafa tekið þátt í viðbótarlífeyrissparnaði.
Ákvæðið er svohjóðandi: Samkvæmt gildandi kjarasamningum er vinnuveitenda skylt frá 1. janúar 2002 að greiða 2% mótframlag í séreignarsjóð (eða eftir atvikum sameignarsjóð) gegn 2% viðbótarframlagi launamanns. Samkomulag er um breytingu á þessu ákvæði þannig að frá og með 1. júlí 2002 munu vinnuveitendur greiða 1% framlag í séreignarsjóð launamanns án framlags af hálfu launamanns. Áfram gildir reglan um 2% mótframlag gegn 2% viðbótarsparnaði launamanns og leiðir þess viðbót ekki til hækkunar á því. Framangreind breyting gildir þó ekki í þeim tilvikum þar sem lög- og samningsbundin lífeyrisframlög vinnuveitenda eru samtals 7% eða hærri. Framlag þetta greiðist til séreignardeildar þess lífeyrissjóðs sem viðkomandi launamaður á aðild að, nema launamaður ákveði annað. Samkvæmt framansögðu skal launagreiðandi frá og með 1. júlí 2002 greiða 1% mótframlag af launum fyrir þá starfsmenn sem hafa fram til þessa ekki tekið þátt í séreignarsparnaði í samræmi við ákvæði 9. gr.laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi. lífeyrissjóða. Framlag þetta greiðist til séreignardeildar þess lífeyrissjóðs sem viðkomandi launamaður á aðild að, nema launamaður ákveði sérstaklega eftir að framlagið verði greitt til annars vörsluaðila lífeyrissparnaðar, sbr. 3. mgr. 8. gr. laga nr. 129/1997. Vakin er athygli launagreiðenda og sjóðfélaga á þessu ákvæði kjarasamnings ASÍ og SA um 1% mótframlag, sem taka mun gildi um næstu mánðarmót, eins og áður segir. Nauðsynlegt er vegna eftirfylgni að fram komi á launaseðli viðkomandi launamanns til hvaða vörsluaðila lífeyrissparnaðar 1% mótframlag launagreiðanda rennur.