Nú er öllum launagreiðendum gert að greiða 0,13% af heildarlaunum starfsmanna sinna til VIRK – Starfsendurhæfingarsjóðs, sbr. ákvæði til bráðabirgða við lög nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða sem samþykkt var á síðasta vorþingi. Iðgjaldinu ber að skila í fyrsta skipti miðað við iðgjaldastofn septembermánaðar 2011.
Greiðslan er lögbundin og nær jafnt til launþega sem sjálfstætt starfandi atvinnurekenda. Áður byggði greiðsla til VIRK á kjarasamningum og náði því aðeins til félagsmanna stéttarfélaga. Launagreiðendum ber að standa skil á iðgjaldinu til viðkomandi lífeyrissjóðs með sama hætti og gildir um lífeyrisiðgjald en sjóðirnir ráðstafa gjaldinu áfram til VIRK – Starfsendurhæfingarsjóðs. Iðgjaldið veitir launamönnum réttindi til þjónustu hjá VIRK – Starfsendurhæfingarsjóði ef heilsubrestur veldur skertri starfsgetu. Markmiðið er að auka getu til virkrar þátttöku á vinnumarkaði og draga þannig markvisst úr líkum á því að launafólk hverfi af vinnumarkaði vegna varanlegrar örorku, með aukinni virkni, starfsendurhæfingu og öðrum úrræðum. Vigdís Jónsdóttir, framkvæmdstjóri VIRK vill hvetja lífeyrissjóðina til að kynna sér þjónustuna og beina sjóðfélögum sínum að nýta sér hana.