Ingólfur, Góisportrönd, vill fá svör frá vinnandi ungmennum
Það er að mörgu að hyggja þegar þú byrjar að vinna: Hver eru launin? Hvernig er vinnuaðstaðan? Vinnutíminn? Verkefnin? Framtíðarmöguleikarnir? ....og þú byrjar að greiða í lífeyrissjóð. Hvað er það?
Lífeyrissjóðakerfið á 90 sekúndum
Allir sem orðnir eru 16 ára greiða í lífeyrissjóð sem er sameiginlegur sjóður okkar allra, og gera það fram til sjötugs.
Segja má að lífeyrissjóðurinn þinn sé bakhjarl eða félagi þegar eitthvað ber út af vegna veikinda eða slysa og lífið fer öðruvísi en við gerðum ráð fyrir. Lífeyrissjóðurinn er einnig bakhjarlinn þinn þegar þú hættir að vinna og ætlar að nýta tímann vel til að sinna áhugamálum, barnabörnum og öðru sem þig langaði alltaf til að hafa tíma til að gera.
Sjá nánar um skyldulífeyristryggingu - samtrygging
Innan vébanda Landssamtaka lífeyrissjóða eru 21 lífeyrissjóður, misstórir. Sumir sjóðirnir eru eingöngu fyrir ákveðnar starfsgreinar en aðrir eru opnir öllum, að fullu eða að hluta til.
Launafulltrúinn eða forráðamaður fyrirtækisins sem þú vinnur hjá gefur þér upplýsingar um í hvaða lífeyrissjóð þér ber að greiða.
Kíktu á sjóðina og finndu lífeyrissjóðinn þinn. Ráðgjafar hjá lífeyrissjóðnum þínum eru alltaf til viðtals.
Meginreglan er sú að í hvert sinn sem þú færð útborgað þá fara 4% af laununum þínum til lífeyrissjóðsins. Launagreiðandinn sér um þetta allt saman fyrir þig og greiðir sjálfur að lágmarki 11,5% mótframlag fyrir þig, lögum samkvæmt. Í sumum tilvikum er samið um hærra mótframlag.
Lífeyrissjóðurinn þinn verður bakhjarlinn þinn héðan í frá og þú getur alltaf leitað til ráðgjafa þar ef þig vantar frekari upplýsingar.
Með því að greiða í lífeyrissjóð safnar þú upp réttindum til að fá greiddan ævilangan ellilífeyri. Með greiðslunum ert þú jafnframt að tryggja þig og fjölskyldu þína fyrir áföllum eins og vinnutapi vegna örorku (slys eða veikindi) og maka þinn og börn sem fá greiðslur ef þú fellur frá.
Um þetta gilda margskonar reglur sem þú getur kynnt þér hér en þú getur líka alltaf haft samband við ráðgjafa hjá lífeyrissjóðnum þínum.
Nánar um ellilífeyri Nánar um örorkulífeyri Nánar um maka- og barnalífeyri
Viðbótarlífeyrissparnaður er eitthvað sem þú ræður hvort þú vilt taka þátt í. Hann virkar þannig að þú getur valið að borga 2% eða 4% aukalega sem lagt er inn á sérstakan sparnað fyrir þig. Þegar þú ert orðin 60 ára getur þú tekið sparnaðinn út. Atvinnuveitandinn þinn leggur til mótframlag sem almennt er 2% og borgar aukalega inn á sparnaðinn þinn. Það má því segja að með því að borga í viðbótarlífeyrissparnað sértu að fá einskonar kaupauka.
Þeir Arnór Björnsson og Óli Gunnar Gunnarsson, sem hafa gert fjölmörg myndbönd sem tengjast fjármálum fyrir Fjármálavit og Landssamtök lífeyrissjóða eru aðili að, vita að þú ert í góðum málum ef þú ert með viðbótarlífeyrissparnað. Þá getur þú jafnvel drukkið mjólkina úr glasi á fæti!
Það borgar sig að byrja strax með viðbótarlífeyrissparnað
Vegna mótframlags launagreiðandans og hagstæðra skattareglna er viðbótarlífeyrissparnaður afar hagkvæmur sparnaður. Við ráðleggjum þér að byrja strax að borga í viðbótarlífeyrissparnað.
Nánar um viðbótarlífeyrissparnað
Jafnframt er tækifæri til að nýta viðbótarlífeyrissparnaðinn við kaup á fyrstu íbúð!
Til að auðvelda ungu fólki kaup á húsnæði hefur Alþingi samþykkt lög sem gera fasteignakaup auðveldari og afborganir léttari. Lögin gera fólki kleift að ráðstafa viðbótarlífeyrissparnaði, skattfrjálst, til kaupa á fyrstu íbúð eða að ráðstafa viðbótarlífeyrissparnaðinum inn á höfuðstól láns.
Sjá nánar um kaup á fyrstu íbúð
Skemmtilegt viðtal við ungt fólk sem var að fjárfesta í sinni fyrstu íbúð.
Landssamtök lífeyrissjóða leggja mikla áherslu á fræðslu til almennings og bjóða uppá kynningu um lífeyrismál undir heitinu Lífeyrisvit.
Lífeyrisvit er almenn fræðsla um lífeyrismál ætluð fyrirtækjum, stofnunum og öðrum áhugasömum þeim að kostnaðarlausu. Hægt er að panta kynningu á Lífeyrisviti hér.
Þá eru samtökin aðilar að Fjármálaviti en Fjármálavit er námsefni í fjármálafræðslu í efri bekkjum grunnskóla landsins í eigu Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF) og LL.
Starfsfólk lífeyrissjóðanna hafa tekið þátt í því að fræða grunnskólanemendur um fjármál einstaklinga og kynna þennan mikilvæga málaflokk.
Samtökin eru einnig í samstarfi við Alþýðusamband Íslands í framhaldsskólum landsins. Hér má sjá kynningarmyndband - Lífeyrissjóðir á 90 sekúndum - sem ASÍ nýtir í sinni fræðslu fyrir nemendur í framhaldsskólum landsins.