Helstu niðurstöður samanburðar lífeyriskerfa í fimm ríkjum kynntar á morgunverðarfundi 7. mars sl.
Kynning Stefáns Halldórssonar, verkefnisstjóra LL, á fundinum á Grandhóteli var yfirgripsmikil og leiddi margt áhugavert í ljós. Íslenska lífeyriskerfið kemur vel út í samanburði við kerfin í Bretlandi, Danmörku, Hollandi og Svíþjóð en sker sig samt að ýmsu leyti úr.
- Hlutfallslega fleiri og fleiri Íslendingar fá eftirlaun úr lífeyrissjóðum en engan lífeyri úr opinbera kerfinu. Ísland er eina OECD-landið þar sem stærstur hluti eftirlauna kemur úr lífeyrissjóðum.
- Tekjutenging er mest á Íslandi og lífeyrishlutfall lækkar mun hraðar með auknum tekjum en í kerfum hinna landanna. Tekjutengingin hefur að hluta aukist við breytingar á almannatryggingum 1. janúar 2017. Íslendingar leggja áherslu á að beina opinberum lífeyrisgreiðslum einkum að þeim verst settu og láglaunafólki. Þess vegna fá þeir sem eiga góð réttindi í lífeyrissjóðum, eða hafa umtalsverðar aðrar tekjur, lítið eða ekkert úr opinbera kerfinu.
- Lífeyrishlutfall lækkar með auknum tekjum í fjórum ríkjum. Í Svíþjóð skila hærri tekjur hins vegar hærra lífeyrishlutfalli, bæði fyrir og eftir skatta.
- Í Danmörku og Hollandi bera þeir lægst launuðu meira úr býtum eftir að þeir komast á eftirlaun en þeir gerðu á starfsævinni. Í Svíþjóð bera þeir lægst launuðu hins vegar minna úr býtum en þeir gerðu á starfsævinni.
- Heildarmyndin er sú að hollenska kerfið skilar hæstu lífeyrishlutfalli og þar eru sveiflar minnstar eftir tekjum. Íslenska kerfið kemur næst á eftir.
- Ráðstöfunartekjur eldri borgara á Íslandi komast næst því að jafnast á við ráðstöfunartekjur landsmanna allra. Lífeyrir frá hinu opinbera er heldur hærri í Danmörku en á Íslandi en tekjur úr lífeyrissjóðum og aðrar tekjur vega það upp og meira til hérlendis. Hafa ber í huga að hlutfallslega mun fleiri eldri borgarar á Íslandi (66 ára og eldri) hafa tekjur af atvinnu en í öðrum samanburðarríkjum og eru ekki komnir á eftirlaun.
- Íslendingar fara að jafnaði á eftirlaun einu til tveimur árum eftir að opinberum lífeyristökualdri er náð en í öðrum samanburðarríkjum fer fólk hins vegar að jafnaði á eftirlaun nokkru áður en aldursmörkum er náð. Íslendingar eru á eftirlaunum að jafnaði mun skemur í árum talið en tíðkast í hinum ríkjunum.
- Aldursdreifing og mikil atvinnuþátttaka eiga stærstan þátt í að íslenska lífeyriskerfið kemur vel út í alþjóðlegum samanburði þrátt fyrir að hér séu greidd lægri iðgjöld en víðast hvar annars staðar.
Stefán nefndi í lok erindis síns að tvö erlend rannsóknarteymi birti árlega skýrslur og beri saman lífeyriskerfi í tugum ríkja. Hvorugt teymið hefur Ísland með í hópnum en af umfjöllun um styrkleika og veikleika kvað hann mega ráða að Ísland stæði framarlega í samanburðinum ef sömu mælikvörðum væri beitt á lífeyriskerfið hér.
Þannig yrði íslenska kerfið í „topp tíu“ af alls 27 ríkjum í samanburði teymis á vegum eignastýringardeildar Allianz og í „topp tíu“ af 54 ríkjum hjá hinu teyminu, í rannsóknarsetri Mercer ráðgjafafyrirtækisins og Monash viðskiptaháskólans í Melbourne.
Tenging á greinargerðina