„Á hvaða skeiði ævinnar líður fólki best? Á uppvaxtarárum? Á námstíma? Í starfi á vinnumarkaði eða á efri árum? Því svarar auðvitað hver fyrir sig á sinn hátt. Ég staldra við þá staðreynd að við njótum hér fyrirtaks atlætis og ég bý við góðar aðstæður til starfs og leiks. Hér er gott að vera.“
Valgarð Briem var góður heim að sækja á bóndadegi á Hrafnistu í Reykjavík. Þar deilir hann herbergi með eiginkonu sinni, Bentu Margréti Jónsdóttur Briem. Hann er á nítugasta og þriðja ári, í hæsta máta virkur og starfsamur.
Valgarð skrifar og þýðir tímaritsgreinar um lögfræðileg málefni. Fyrr í janúarmánuði var hann viðstaddur afhöfn í Höfna þegar Dagur B. Eggertsson borgarstjóri veitti styrki úr Minningarsjóði Gunnars Thoroddsens. Á bóndadaginn sat hann fund í tilefni af fimmtugsafmæli hægri umferðar á Íslandi 26. maí næstkomandi.
Orðasambandið „að setjast í helgan stein“ er hér merkingarlaust með öllu.
Valgarð var formaður framkvæmdanefndar hægri umferðar sem Jóhann Hafstein dómsmálaráðherra skipaði. Sunnudaginn 26. maí 1968 ók hann Dodge-bílnum sínum af vinstri akrein yfir þá hægri framan við Útvarpshúsið á Skúlagötu í Reykjavík. Þjóðin fylgdi honum eftir. Og nú skal minnst merkra tímamóta í vor.
„Með mér í framkvæmdanefndinni voru Einar B. Pálsson verkfræðingur og Kjartan Jóhannsson læknir. Margir spáðu því að um landið færi slysafaraldur í umferðinni í kjölfar breytingarinnar en það var nú öðru nær. Slysum og óhöppum fækkaði.
Þegar við lögðum H-nefndina niður óskaði dómsmálaráðherra eftir því að við nefndarmenn tækjum sæti í Umferðarmálaráði sem stofnað var 1969 en það vildum við ekki. Sigurjón Sigurðsson lögreglustjóri varð formaður ráðsins fyrstu tíu árin en svo fór að ég tók þá formennskunni og gegndi henni í fjögur ár.“
Valgarð Briem var farsæll lögmaður og embættismaður sem kom víða við sögu á starfsferli sínum. Hann er minnisgóður með afbrigðum og hefur frá mörgu að segja.
Hratt flýgur því stund í spjalli á bóndadegi. Hann útskrifaðist með stúdentspróf úr Verslunarskóla Íslands og var í sjö manna hópi fyrstu stúdenta VÍ vorið 1945. Benta Briem tilheyrði sama árgangi. Hún hóf nám í Verslunarskólanum á sama tíma og lauk verslunarprófi en Valgarð hélt áfram námi og nældi í hvíta kollinn. Hann hafði reyndar áhuga á búskap og ætlaði að venda sínu kvæði í kross með því að fara í bændaskólann á Hólum í Hjaltadal en Viljálmur Þ. Gíslason, skólastjóri Verslunarskóla Íslands, taldi hann á að halda sitt strik í náminu þar.
Eftir stúdentspróf lá leiðin í lögfræði í Háskóla Íslands og Valgarð varð fyrstur Verslunarskólastúdenta til að ljúka lagaprófi. Hann tók síðan sjórétt sem sérgrein í framhaldsnámi og var annar í röð Íslendinga til að hljóta löggildingu sem niðurjöfnunarmaður sjótjóna.
Valgarð gerðist lögmaður Bæjarútgerðar Reykjavíkur að námi loknu og var síðar ráðinn forstjóri Innkaupastofnunar Reykjavíkurborgar. Þetta var í borgarstjóratíð Gunnars Thoroddsens. Þeir Gunnar eru synir systranna Maríu og Önnu Claessen. Kært var með frændum alla tíð.
Á þessum tíma starfsferils er að finna rætur þess að Valgarð valdist síðar til forystu í framkvæmdanefnd hægri umferðar og Umferðarmálaráði sem síðar nefndist Umferðarráð.
„Umferðaróhöpp í Reykjavík voru óvenju tíð og Gunnar borgarstjóri ákvað að gera eitthvað í málinu. Hann bað mig um að taka að mér sérverkefni fyrir umferðarnefnd Reykavíkur og kanna hvað hægt væri að gera til að auka umferðaröryggi í borginni. Ég leigði herbergi á Hótel Heklu og var þar fyrri hluta dags um skeið í verkefninu. Sigurjón Sigurðsson lögreglustjóri var formaður umferðarnefndar og við náðum afskaplega vel saman. Þarna ákváðum við að hafa einstefnu á nokkrum götum sem á var tvístefnuakstur, fjölguðum gatnamótum með biðskyldu og stöðvunarskyldu og gerðum fleiri ráðstafanir í öryggisskyni.
Sýnilegasta breytingin varðaði hins vegar bílastæði. Þeim fjölgaði og upp voru settir stöðumælar á völdum stöðum í miðborginni, þeir fyrstu á Íslandi. Ég las um stöðumæla í bandarísku tímariti, keypti nokkra slíka frá Bandaríkjunum, Bretlandi og Svíþjóð og fór með þá í Fiskiðjuver ríkisins á Grandagarði. Þar var sprautað vatni á mælana og þeir síðan settir í frystiklefa til að láta á þá reyna við erfiðar veðurfarsaðstæður.
Amerísku stöðumælarnir stóðu sig best og urðu ofan á í vali borgarinnar en 20 sænskir mælar voru samt settir upp allra fyrst við Kirkjutorg/Dómkirkjuna. Því næst voru settir upp mælar í Austurstræti og Hafnarstræti og þar á eftir í Lækjargötu og Aðalstræti.
Stöðumælavæðingin mætti nokkurri andstöðu í borgarráði en borgarstjórinn hlustaði ekki á úrtöluraddir og hvatti til þess að áfram yrði hiklaust haldið!
Ég samdi reglugerð fyrir sérstakan stöðumælasjóð og þar var kveðið á um að allar tekjur af stöðumælum yrðu notaðar til að fjölga bílastæðum. Stöðumælasektir runnu sömuleiðis í sjóðinn. Árangurinn varð sá að borgin gat leigt einkalóðir í miðbænum og skipulagt sem bílastæði.
Ég lagði til að næsta skref yrði að koma upp tveimur bílastæðahúsum á mörgum hæðum fyrir fólk sem ynni í miðbænum og þyrfti að koma bílunum sínum fyrir daginn allan. Annað húsið skyldi vera grafið inn í Arnarhól en hitt skyldi rísa á mótum Vesturgötu og Garðastrætis. Ég las mér til um fyrirkomulag í bílastæðahúsum og fór til Frakklands til að kynna mér mismunandi kosti í þeim efnum.
Aðalatriðið var að borgarstjórinn fékk það sem hann sóttist eftir. Ráðstafanir í miðborginni og víðar í Reykjavík skiluðu miklum árangri. Umferðin varð öryggari en áður og óhöppum og slysum fækkaði.“
Fækkun slysa í Reykjavík vakti eðlilega umtal og eftirtekt, meðal annars í ráðuneyti dómsmála. Valgarð varð í framhaldinu formaður framkvæmdanefndar um hægri umferð og „andlit“ þessarar miklu breytingar sem varðaði þjóðina alla. Þegar hann rúmlega áratug síðar var orðinn formaður Umferðarmálaráðs beitti hann sér fyrir fleiri breytingum til að auka öryggi í umferðinni. Þær gengu ekki hljóðalaust fyrir sig.
„Á formennskuárunum mínum í Umferðarmálaráði var lögleitt að skylda fólk til að nota bílbelti og að hafa alltaf ökuljós á bílum. Báðar þessar breytingar voru andstæðar almenningsálitinu. Sumir töldu það hreinlega ávísun á slys og jafnvel dauða að vera bundinn niður í bílsætið ef eitthvað kæmi fyrir. Aðrir máttu vart mæla af hneykslan yfir þeirri hugmynd að aka um með full ljós á bílum um hábjartan dag!
Ég velti fyrir mér hvernig hefði gengið að koma þessu í gegn nú til dags, á tímum Fésbókar og margfalt harkalegari þjóðmálaumræðu en þekktist þá.
En ég velti sömuleiðis fyrir mér hve margir Íslendingar geta þakkað bílbeltum lífið eftir slys í umferðinni, fólk sem hefði ella örkumlast eða farist. Það á ábyggilega við fleiri en margan grunar.“
Valgarð Briem er þægilegur og áhugaverður viðmælandi. Hann er hafsjór af fróðleik sem hvergi er að finna nema í eigin kolli. Margur maðurinn hefði af minna tilefni skráð ævisögu sína en hann segir slíkt aldrei hafa hvarflað að sér.
„Nei, nei. Mér finnst ævi mín ekki vera bókarefni. Hins vegar hef ég skráð eitt og annað fyrir sjálfan mig og afkomendur, til dæmis tók ég saman hefti um æskustöðvarnar í Reykjavík; hús og íbúa við Sóleyjargötu, Fjólugötu og Laufásveg.
Ég skrifaði líka sögu briddsklúbbs Björns Tryggvasonar. Við vorum upphaflega átta í hópnum en ég er einn eftir af þeim upprunalegu. Afkomendur hafa tekið sæti feðra sinna í klúbbnum og við spilum annað hvert mánudagskvöld.
Heyrðu vinur, nú verðum við að láta staðar numið. Þorrablótið á Hrafnistu hefst eftir klukkustund og ég verð að hafa mig til. Ertu á bíl, viltu sjúss að skilnaði?“
Skrifari var sem betur fer gangandi og Valgarð tók fram álitlegt danskt ákavíti og hellti í bikara úr gegnheilu silfri. Á þá er grafið GTh 29.12.1960.
„Þetta eru hátíðardrykkjarmálin mín, afmælisgjöf borgarstjórnar Reykjavíkur til Gunnars Thoroddsens þegar hann varð fimmtugur. Vala færði mér bikarana að frænda mínum gengnum. Skál!“
Gunnar varð borgarstjóri Reykjavíkur 1947. Hann fékk leyfi frá embættinu í nóvember 1959 og lausn í október 1960. Hann var þá orðinn fjármálaráðherra í Viðreisnarstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks með Ólaf Thors í forsæti.
Benta og Valgarð stofnuðu Minningarsjóð Gunnars Thoroddsens og úthluta úr honum í upphafi hvers árs, í 27. sinn nú í janúar 2018.
Í ár fékk annars vegar Hrafnista hálfa milljón króna til að styrkja félagsstarf íbúanna, hins vegar veitti sjóðurinn hálfa milljón króna til aðstoðar ungu fólki sem glímir við fíkniefnavanda.
Þetta var 27. úthlutun úr sjóðnum frá upphafi. Úr honum verður úthlutað alls 50 sinnum. Valgarð og Benta hafa búið svo um hnúta til framtíðar, fjárhagslega og skipulagslega.
Valgarð kveðst eiga Gunnari Thoroddsen margt að þakka. Minningarsjóðurinn er þakklætisvottur í minningu stjórnmálaforingjans af ættinni Briem.
Það er því við hæfi og táknrænt að skála fyrir forsætisráðherranum fyrrverandi í upphafi þorrahátíðar á Hrafnistu í silfurstaupunum góðu frá desember 1960.
„Ég var formaður Málfundafélags Verslunarskóla Íslands og síðar formaður bæði Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta, í Háskóla Íslands og Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík.
Um tíma var ég varafulltrúi í borgarstjórn og sat þá í stjórnum Bæjarútgerðarinnar, Innkaupastofnunar og umferðarnefndar borgarinnar.
Mig grunar að Gunnar frændi minn hafi ætlað að gera úr mér stjórnmálamann og reynt að fóstra mig þannig.
Það gekk ekki eftir. Pólitískur neisti var ekki fyrir hendi.
Mér hugnaðist betur að starfa með stjórnmálamönnum en að gerast stjórnmálamaður sjálfur.“