„Ég var upphaflega húkkuð í séreignarsparnaðarviðskipti þegar ég var bara 16 ára skólastelpa og afleysingastarfsmaður í IKEA. Síðan þá hef ég flakkað milli sjóða, lagt reglulega fyrir en tekið eitthvað út líka. Ég á bæði séreignarsjóði til framfærslu þegar þar að kemur og legg líka fyrir á séreignarreikning til að borga niður höfuðstól fasteignalánanna minna. Slíkur sparnaður með skattaafslætti kemur sér vel en er vissulega tvíeggjað sverð. Ég kysi frekar að séreignarsparnaður væri eingöngu hugsaður sem viðbótarlífeyrir til framfærslu og að síðan yrði stofnað til sérstaks skyldusparnaðarkerfis vegna fasteignakaupa,“ segir Svanborg Hilmarsdóttir rafvirki um þrítugt. Hún er starfsmaður Veitna ohf., dótturfélags Orkuveitu Reykjavíkur, stundar framhaldsnám í rafmagnstæknifræði og er formaður í ungliðasamtökum Rafiðnaðarsambands Íslands – RSÍ UNG.
„Séreignarsparnaður er einfaldlega skynsamlegt fyrirkomulag. Fyrir mér vakir fyrst og fremst að eiga meira en réttindi í almennu lífeyrissjóðunum til að ganga að þegar þar að kemur. Um að gera að byrja sem fyrst að safna. Mér heyrist flestir á mínu reki í kringum mig leggja
inn á séreignarsparnaðarreikninga, einkum til að greiða niður fasteignalán. Skattaafslátturinn kallar líka á að menn nýti sér þann kost.“
„Við ætlum að eignast íbúð en ekki fyrr en að við getum lagt í hana umtalsvert eigið fé. Séreignarsparnaður er besta leiðin til að eignast eitthvað þegar kemur að kaupsamningi og útborgun. Ráðgjafi VÍB benti mér á þetta í sumar og ég þurfti ekki langan tíma til að sannfærast. Hver hafnar því að fá 2% kauphækkun?“ segir Haraldur Örn Hansen viðskiptafræðingur og þjónustufulltrúi í Íslandsbanka á Akureyri. Hann útskrifaðist úr Háskólanum í Reykjavík í vor og eignaðist barn með unnustunni í fyrrasumar. Þau eru bæði Akureyringar að uppruna og ákváðu að flytja norður á heimaslóðirnar og setjast að. Íbúðarkaup eru á dagskrá en ekki fyrr en safnast hefur eigin sjóður til að nota í fasteignaviðskiptunum. Haraldur Örn fékk vinnu í bankanum og samdi fljótlega um að leggja 4% af mánaðarlaunum inn á séreignarsparnaðarreikning gegn því að fá 2% mótframlag atvinnurekandans.
„Við gerum ráð fyrir að líta í kringum okkur á fasteignamarkaði á árinu 2017 en leggja svo áfram fyrir eins lengi og þetta fyrirkomulag séreignarsparnaðar verður í gildi. Engin spurning
að nota tækifærið og losna um leið við að borga tekjuskatt af því sem lagt er inn á reikninginn. Ég mæli með þessu!“
Birtist í Vefflugunni í nóvember 2015