„Meginskilaboð okkar eru þau að Íslendingar eigi að líta á erlenda fjárfestingu lífeyrissjóða sem áhættudreifingu fremur en áhættu líkt og andi lífeyrissjóðslaganna ber raunar með sér. Hið sama á við erlendar fjárfestingar hérlendis ef þær eru undir réttum formerkjum, það er að fjárfestar leggi fram eigið fé til íslenskra fyrirtækja með langtímahagsmuni í öndvegi. Með erlendum eignum, og með því að selja útlendingum hlut í íslensku atvinnulífi, eru landsmenn að ná fram áhættudreifingu.
Í sögulegu samhengi eru Íslendingar sér á báti í okkar heimshluta með því að vera frekar andsnúnir markaðskerfi en hallir undir haftalausnir. Menn geta haft ýmsar skoðanir á því hvort rétt hafi verið að setja höftin á í kjölfar hrunsins en aðalatriðið er að tími þeirra er liðinn. Þeim verður að aflétta.“
Þetta segir Ásgeir Jónsson hagfræðingur og höfundur bókarinnar Áhættudreifing eða einangrun? – Um tengsl lífeyrissparnaðar, greiðslujafnaðar og erlendra fjárfestinga, ásamt Hersi Sigurgeirssyni fjármálafræðingi.
- Varð hjá því komist að setja fjármagnshöft til að milda áhrif hrunsins?
„Rökin fyrir þeirri ákvörðun voru pólitísk að stórum hluta og mikill fjármagnsflótti úr landi hafði í raun gert gjaldeyrismarkaðinn óvirkan. Velta má því fyrir sér hvort almenningur á þeim tíma hefði hreinlega þolað að taka á sig viðbótarsársauka með því að láta fjármálamarkaðinn sjálfan „hreinsa sig“ á þann hátt að fjárfestar gerðu upp við sig hvort þeir vildu fara eða vera með fjármagnið sitt. Sú „hreinsun“ hefði tekið einhvern tíma og undan henni hefði sviðið. Hins vegar er ekki vafamál í mínum huga að Íslendingar stæðu mun betur efnahagslega ef höftin hefðu ekki verið sett og landið haldið samþættingu sinni við alþjóðlega fjármálamarkaði, þó það hefði kostað mikinn skammtímasársauka.“
- Var innistæða fyrir því sem sagt var, að fjármagnshöftin væru sett „til skamms tíma“ og yrðu síðan afnumin?
„Nei, komið hefur ljós að hugtakið „til skamms tíma“ er mjög teygjanlegt. Nú sex árum síðar tala stjórnmálamenn um nauðsyn þess að afnema höftin en mun minna ber á raunverulegum aðgerðum í þá átt, svo sem að fylgja yfirlýstri stjórnarstefnu um að stuðla að hærra lánshæfismati landsins.“
- Þá liggur beint við að spyrja: Líður stjórnmálamönnum og almenningi ekki bara bærilega í höftum? Fólk segir gjarnan: Ég finn ekkert fyrir höftunum. Ég veit hvað ég hef og óttast afleiðingar þess að höftin fari. Hverju svarar þú?
„Jú, höftin eru þægileg og það skapar andvaraleysi. Þau skapa stöðugleika, enda er í krafti þeirra hægt að halda gengi krónunnar stöðugu. Ég bendi hins vegar á að framleiðni í efnahagskerfinu á Íslandi hefur nánast ekkert aukist á árunum eftir hrun og kenni fjármagnshöftum um, framar öðru. Alþjóðleg starfsemi og útflutningur snýst um miklu meira en það að framleiða vöru hér og flytja út. Starfsemin snýst einnig um fjármálalega samþættingu og rekstur án landamæra.
Alþjóðavæðingin virkar að miklu leyti með frjálsu flæði framleiðsluþátta milli landa, einkum fjármagns. Þannig næst stærðarhagkvæmni, breiddarhagfræði og hugmyndir og tækni ferðast milli landa. Ef íslensk fyrirtæki eru lokuð frá þessum frjóvgandi straumum er það ávísun á einangrun og óhagkvæmni, enda eru þau bundin við innlendan markað.
Þau fáu fjölþjóðafyrirtæki, sem þegar eru til staðar hér, eiga í hinu mesta basli með að halda rekstrinum í eðlilegum farvegi á tímum hafta. Dæmin hrannast upp þar sem íslensk stjórnvöld gera athugasemdir við eðlilega starfsemi slíkra fyrirtækja af því hún passar ekki inn í lagaramma fjármagnshafta. Augljós afleiðing þessa er að fyrirtækin flytja höfuðstöðvar sínar úr landi. Ný íslensk fyrirtæki, sem hugsa sér gott til glóðarinnar á erlendum markaði, verða stofnuð erlendis en ekki hér heima. Þetta gerist framan við nefið á okkur.“
- Þið Hersir tókuð að ykkur að fjalla um áhrif fjármagnshafta á samfélagið og lífeyrissjóðina sérstaklega en kvíarnar hafa greinilega færst til þegar út í alvöruna var komið. Bókin ykkar er í raun og veru ágrip af hagsögu á Íslandi að hluta frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Þurfti að fara svo langt aftur í tímann til að greina og skilja viðfangsefnið?
„Að nokkru leyti, já. Nútímahagsaga Íslands hefur að vísu ekki verið skrifuð en þarna eru ýmsir hlutir settir í sögulegt samhengi, enda skilst og skýrist margt í nútíð betur í spegli þátíðar. Áhrif haftanna 1931 eru til að mynda vel merkjanleg í umræðu um efnahagsmál, sem breyttist frá því að vera fagleg og með alþjóðlegri skírskotun og til þess að verða heimóttalegt hjal.
Hluti vandans er sá að Íslendingar eru einfaldlega mun vanari höftum en frelsi í fjárfestingum og fjármagnsflutningum. Höft voru sett á árið 1931 og ekki afnumin fyrr en 62 árum síðar þegar samningur um Evrópska efnahagssvæðið var lögfestur 1993! Frelsið varði í 15 ár og svo voru höft sett á aftur árið 2008. Margar kynslóðir eru vanar því að búa við höft að þessu leyti.“
- Lærdómur ykkar af rannsóknunum?
„Í fyrsta lagi hafði ég ekki fyrr gert mér grein fyrir því hve illa íslenska hagkerfið var rekið á liðinni öld í fjármagnshöftum og ekki þurfti að hafa áhyggjur af fjármagnsflótta. Frá seinna stríði og til hruns var fjármagnsjöfnuður alltaf jákvæður og erlendum sparnaði var dælt inn í hagkerfið á vegum ríkisins, aðallega í sjávarútveg og landbúnað.
Hagkerfinu var frekar stjórnað með boðum og bönnum en gegnum markaðinn. Ísland er minnsta myntsvæði veraldar og erfitt var að halda greiðslujöfnuði í lagi. Svo var fylgt stefnu sem bókstaflega stuðlaði að ójafnvægi með því að flytja stöðugt inn fjármagn sem leiddi síðan til viðskiptahalla, þenslu og vandræða. Íslensk hagsaga er að stórum hluta vandræðasaga þjóðarinnar við að halda stöðugleika á greiðslujöfnuði við útlönd.
Í öðru lagi blasir við skýr mynd af afleiðingum þess að líta á erlendar fjárfestingar sem áhættu en ekki áhættudreifingu. Hlutfall erlendra eigna lífeyrissjóða er alltof lágt og verður að aukast. Sama á við um eignir íslenskra verðbréfasjóða og íslenskra fjárfesta yfirleitt. Þær verða að aukast hlutfallslega og hljóta að gera það.
Þetta er hins vegar ekki einstefnuleið. Við þurfum sárlega á beinni erlendri fjárfestingu að halda á Íslandi og verðum að losa okkur við þessa sífelldu minnimáttarkennd gagnvart erlendum fjárfestum. Höftin verða ekki afnumin nema okkur leyfist að fara út og þeim að koma hingað inn í vissu um að komast út aftur, ef svo ber undir.“
„Fjármagnshöft eru óheilbrigð fyrirbæri og meira að segja dýrkeypt líka í bókstaflegum skilningi. Reynslan sýnir að þeim mun lengur sem höft vara þeim mun meira svigrúm fá stjórnmálamenn til að fara út í hreina vitleysu á borð við að falsa vexti og færa peninga til og frá í pólitískum tilgangi.
Ég heyri stjórnmálamenn, líka á hægri vængnum, kvarta yfir því að „markaðurinn ráði of miklu en stjórnmálamenn of litlu!“ Það sem þeir vísa til kalla ég aga markaðarsins. Markaðurinn á ekki að lúta pólitísku forræði. Hann refsar þá stjórnmálamönnum fyrir rangar ákvarðanir. Undan slíku getur sviðið en það er samt skilyrði efnahagslegra framfara og góðra lífskjara.“
Birt í Vefflugunni í desember 2014