„Meirihluti eigna lífeyrissjóða ætti að vera erlendis“
„Verðum við ekki að dreifa áhættunni? Hér hafa menn sett ákveðið „þak“ á það að lífeyrissjóðir mega fjárfesta erlendis en við eigum að horfa á þetta úr hinni áttinni. Það er alltof mikil áhætta að vera með þetta allt í einu landi, við eigum að dreifa áhættunni meira og setja „þak“á hvað megi vera hér innanlands,“ sagði Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, á almennum fundi Landssamtaka lífeyrissjóða á Grandhóteli í morgun. Umræðuefnið var nýbirt greinargerð um samanburð á lífeyriskerfum á Íslandi og í fjórum öðrum Evrópuríkjum.
„ Sumum finnst lífeyrissjóðakerfið orðið af stórt nú þegar. Við heyrum nánast daglega hve fyrirferðarmiklir lífeyrissjóðir séu, til dæmis sem eigendur í fyrirtækjum. Svo kvarta menn líka yfir því að lífeyrissjóðir vilji ekki fjárfesta í hinum og þessum fyrirtækjum; væntanlega verður alltaf kvartað, sama hvað menn gera!“ sagði ráðherrann ennfremur.
„Hvað eiga lífeyrissjóðir að eiga mikið undir fyrirtækjum og hvað eiga þeir að eiga mikið undir Íslandi? Hvaða vit er í því að vera með svona stórt kerfi allt á einum, íslenskum markaði?
Auðvitað hefur þetta verið erfitt af því hér eru höft en vonandi hverfa þau fljótlega. Óvenjulegt vandamál er að hér streymir inn meira af gjaldeyri en streymir út. Lífeyrissjóðir halda að sér höndum við fjárfestingar vegna þess að þeir halda að krónan haldi áfram að styrkjast. Ekki veit ég hvort hún styrkist meira eða veikist en ég veit að hún er ekki traustur vinur. Enginn vafi er á því að til lengri tíma litið og til skemmri tíma litið ættu lífeyrissjóðir að færa fjárfestingar sínar úr landi og gæta þess að meirihluti þeirra sé erlendis.“
Fjöldi fólks sótti morgunverðarfundinn þar sem Stefán Halldórsson verkefnisstjóri gerði grein fyrir helstu niðurstöðum samanburðar lífeyriskerfa í fimm ríkjum.
Kynning Stefáns var yfirgripsmikil og leiddi margt áhugavert í ljós. Íslenska lífeyriskerfið kemur vel út í samanburði við kerfin í Bretlandi, Danmörku, Hollandi og Svíþjóð en sker sig samt að ýmsu leyti úr.
Stefán Halldórsson nefndi í lok erindis síns að tvö erlend rannsóknarteymi birti árlega skýrslur og beri saman lífeyriskerfi í tugum ríkja. Hvorugt teymið hefur Ísland með í hópnum en af umfjöllun um styrkleika og veikleika kvað hann mega ráða að Ísland stæði framarlega í samanburðinum ef sömu mælikvörðum væri beitt á lífeyriskerfið hér.
Þannig yrði íslenska kerfið í „topp tíu“ af alls 27 ríkjum í samanburði teymis á vegum eignastýringardeildar Allianz og í „topp tíu“ af 54 ríkjum hjá hinu teyminu, í rannsóknarsetri Mercer ráðgjafafyrirtækisins og Monash viðskiptaháskólans í Melbourne.