Tilboði lífeyrissjóðanna um viðræður um Kaupþing hafnað?

Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, sagði eftir ríkisstjórnarfund í morgun að tilboði lífeyrissjóðanna í Kaupþing hafi verið hafnað. Kaupþing  fari því í sama feril og hinir bankarnir en stofnað verði félag um hann í eigu ríkisins.
Ljóst er að hér er um einhvern misskilning sé að ræða  vegna þess að lífeyrissjóðirnir hafi ekki lagt fram nein kauptilboð heldur formlega ósk um viðræður, sem hófust í vikunni.  Síðan hafi verið óskað eftir viðbótarupplýsingum, sem voru veittar, síðast í hádeginu í dag.
Þorgeir Eyjólfsson, forstjóri Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, segir að fimm lífeyrissjóðir hafi ekki lagt fram ákveðið tilboð í eignir og rekstur Kaupþings heldur hafi þeir óskað eftir viðræðum við Fjármálaeftirlitið um hugsanleg kaup.

Eins og þar kom fram hafa íslenskir lífeyrissjóðir, ásamt öðrum fjárfestum, haft hug á að ganga til samninga um kaup á eignum og rekstri Kaupþings á Íslandi.

 Lífeyrissjóðirnir hafa verulegar áhyggjur af stöðu fjármálakerfisins og áhrifum þess á atvinnulíf í landinu. Eins og sakir standa mun bankakerfið verða nánast að öllu leyti í opinberri eigu og forsjá. Ljóst er að bankakerfið þarf að taka yfir töluverðan fjölda íslenskra fyrirtækja sem munu þá í kjölfarið einnig verða í opinberri eigu.

 Það blasir því við að hlutur hins opinbera í atvinnulífinu muni aukast verulega á næstu misserum og vandasamt og tímafrekt verkefni er framundan við að koma aftur fótum undir rekstur einkafyrirtækja og endurskipuleggja íslenskt efnahagslíf.

Þá er einnig ljóst að hinar opinberu bankastofnanir munu eiga erfiðara um vik við að taka þátt í ýmsum fjárfestingum og verkefnum heldur en ef um banka í einkaeigu væri að ræða. Lífeyrissjóðirnir sem höfðu forgöngu um hugsanleg kaup á bankanum töldu því mikilvægt að styðja við íslenskt efnahagslíf og verðmætasköpun í landinu þar sem mikil þörf er á að hjól atvinnulífsins haldi áfram að snúast og takmarka atvinnuleysi og samdrátt í hagkerfinu.

Aðkoma lífeyrissjóðanna að Kaupþingi hefðu því létt undir með stjórnvöldum við það mikla verk að taka við rekstri annarra fjármálastofnana og stuðla að þátttöku almennings í atvinnulífinu.

 Haft er eftir Þorgeir Eyjólfssyni, forstjóra Lífeyrissjóðs verzlunarmanna í Morgunblaðinu í dag að lífeyrissjóðirnir hefðu ekki fengið formleg svör frá Fjármálaeftirlitinu við erindi sjóðanna en ef niðurstaðan væri sú sem viðskiptaráðherra lýsti yfir í morgun, þá ylli það miklum vonbrigðum. Náð hefði að bjarga miklum verðmætum og tryggja hag sjóðfélaganna af af þessum kaupum hefði orðið.